Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Þorleifur beiskaldi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þorleifur beiskaldi

Þorleifur bjó í Hítardal allt fram um 1200 eftir því sem annálar segja. Hann var höfðingi mikill og kemur mjög við sögu seinni tíma. Um hann er og þessi saga:

Þorleifur var svo auðugur að gangandi fé að enginn ketill var svo stór að hann tæki alla málsmjólkina undan kúnum hans. Kona hans bað hann því að fara í næsta kaupstað til að reyna ef hann fengi keypt ketil nógu stóran. Þorleifur fór og leitaði fyrir sér um ketilinn hjá mörgum kaupmönnum, en það var árangurslaust því enginn þeirra gat selt honum svo stóran ketil. Loksins kemur til hans maður er Þorleifur þekkti ekki og býður honum ketil geipistóran, en eins voru kaupskilmálar hans óvanalegir eins og vara sú er hann lét fala. Hann áskildi sumsé sér fyrir ketilinn kálf undan kvígu einni er Þorleifur átti þegar hún bæri og þar með skyldi bóndi ala kálfinn í þrjú ár og kvað maðurinn líf hans mundi við liggja ef hann brygði af því. Þorleifur gekk að þessum kaupum því þó honum þættu þau undarleg litust honum þau góð og fer heim með ketilinn. Líður nú að því er kvígan ber og er það bolakálfur er hún á. Kálfurinn var bæði stór og fallegur. En þegar hið fyrsta ár varð hann úfinn og illur viðfangs og annað árið svo mannýgur að Þorleifur hélt það bezt af ráðið að drepa hann en þótt loforð hans stæði í milli. Þegar það ár var liðið var þrívegis barið að dyrum hjá honum eins og einhver væri seint á ferð er vildi beiðast gistingar. Gekk svo einn heimamanna út, en sá engan. Var þá aftur barið og fór annar út og var engan að sjá. Þegar barið var hið þriðja sinn vildi enginn heimamanna Þorleifs verða til þess að ganga út; hann fór því sjálfur til dyra en þótt han grunaði þegar að útséð væri um sig. Hann kom ekki heldur aftur, en daginn eftir mátti rekja blóðferilinn frá bænum og að hól einum þar nálægt og hingað og þangað um dalinn sáust tæturnar af líkama Þorleifs og fötum hans og er sagt að mörg örnefni í dalnum séu af því dregin.