Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bóndadóttir hjálpar álfkonu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bóndadóttir hjálpar álfkonu

Á einum bæ vildi svo til eitt kveld á vortíma að dóttir hjóna (ekki er getið um að fleira fólk hafi verið á heimilinu en hjónin og dóttir þeirra) – þegar hjónin voru að hátta um kveldið var stúlkunni skipað að loka bæinn og hyggja um leið hvert fénaður væri ekki til skemmda. Þegar stúlkan lagði bæjarhurðina að stöfunum þá var mannshönd á milli og sá mælti: „Vægðu til.“ Hún gerir svo og sér mann úti fyrir dyrum; sá heilsar henni og tekur í hönd hennar og biður hana að ganga með sér rétt þar út fyrir túnið og leggja hönd á konuna sína. Hún gerir svo. En þegar þau koma út fyrir túnið leiðir maðurinn hana ofan í hól einn. Þar voru lagleg húsakynni og öll áhöld eins og hjá mönnum sem búa ofanjarðar. Þar sér hún konu liggja á gólfi er gat ekki fætt, en þegar stúlkan lagði hönd á hana þá gekk vel til að hún gæti fætt. Að því búnu segir konan það sé bágt að geta öngvu launað henni ómak. Hin segir það hafi ekki verið mikið ómak og ætlist hún ekki til launa fyrir. Samt lætur konan rétta að sér glas með einhverju í; þar ofan í dýfir hún fjöðurstaf og strýkur um vinstra augað á stúlkunni. Svo kveður hún konuna, en maðurinn fylgir henni heim attur og þá voru hjónin ekki alveg afklædd.

Nú liðu tímar og ný misseri komu og bar það oft við að þessi stúlka sá með vinstra auganu börn vera að leika sér á þessum hól sem [hún] kom í einu sinni. En að nokkrum árum liðnum var hún stödd í kaupstað. Sér hún þá þennan sama mann vera að taka hitt og annað út og borga þó ekki neitt. Spyr hún hann þá hvernin hann geti staðið við að taka sona mikið út, en borga ekkert. Hann anzaði engu, heldur strauk hendi sinni um vinstra augað á henni og sá hún hann ekki framar og ekki heldur börnin leika sér á hólnum.