Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bóndinn á Gnúpum
Bóndinn á Gnúpum
Bóndi einn á Gnúpum í Þingeyjarsýslu dreymdi að honum þótti kona koma til sín og kvarta yfir því að börn hans fleygðu grjóti í stöðuvatn eitt þar nærri því við það styggðist silungurinn sem hún ætti að lifa af. Bóndi skeytti þessu ekki og þótti þess ekki þörf að banna börnum sínum alvarlega athæfi þeirra; fóru þau því hinu sama fram eftir sem áður, að þeyta steinum í vatnið. Hin sama kona kom þá í annað sinn til bóndans í svefni og hótar honum að hefna sín. Veturinn eftir bar það við eitt kvöld að allir gluggar voru brotnir á bænum. Bóndi þaut út til að sjá hver hefði leikið þenna hnykk, en hann sá engan og ekki heldur nein spor í snjónum er var nýfallinn, hvorki eftir menn né skepnur. Í annað sinn var ljósið á borðinu drepið eins og með mannshendi án þess komið yrði auga á neinn. Fór þá stúlka fram í eldhús að kveikja aftur, en hún gat ekki komið ljósloga upp í eldstónni. Þrisvar reyndi hún til að kveikja og þrisvar var ljósið drepið fyrir henni aftur jafnharðan; fór þá bóndinn sjálfur til og honum tókst að kveikja eftir langa mæðu. Eitt sinn var fleygt af ósýnilegri hendi þungum og þykkum skóm rétt í ennið á bóndanum; við það reiddist hann og fleygði skónum aftur í sömu átt er þeir voru komnir úr; en þá var þeim grýtt aftur hálfu fastar en fyrr í andlitið á honum. Loksins fór mönnum að standa stuggur af þessum aðförum svo bóndi flutti með allt sitt burt af bænum og hann lagðist í eyði.