Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnsbrókin
Barnsbrókin
Kona er nefnd Ingibjörg Steinsdóttir; hún var vinnukona á Yztafelli í Kinn á átjándu öld seint. En um eitt sumarkvöld bar það til að klæði eður föt sem breidd höfðu verið til þurrks um daginn vóru tekin og borin inn um kvöldið. En af því þerrir hafði verið um daginn og fólk í heyönnum kom það ekki heim fyrr en seint um kvöldið og var þá orðið dimmt. Vóru fötin þá gripin öll í eina hrúgu og borin í bæinn öll sem fundust án þess að athuga það framar. En þegar allt fólk var setzt að var kallað á baðstofuglugg og sagt: „Hefur enginn séð eða tekið bláa barnsbrók á steini úti; ég verð barin ef ég finn hana ekki.“ Var þá farið að skoða fötin sem inn höfðu verið borin og fannst þar þá blá barnsbrók sem enginn þekkti og var hún svo borin út á stein á hlaðinu og var horfin um morguninn. Húsbóndi fyrnefndar Ingibjargar var Jónas Einarsson, merkur bóndi.