Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnshvarfið á Neðri-Glerá

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Barnshvarfið á Neðri-Glerá

Einu sinni bjuggu hjón á Neðri-Glerá í Eyjafirði; þau áttu eina stúlku, fagurt og greint barn; það var fimm ára gamalt er hér var komið sögunni. Hún var einu sinni að leika sér úti á hlaði í góðu veðri sem hún var vön og var því henni ekki þess vegna veitt eftirtekt þar til því fór að lengja eftir henni; þá fer einhver út og þá var hún horfin; það var svo farið að spyrja eftir henni á Efri-Á og á bæjunum í kring, en það kom fyrir ekki og féllst konunni um þetta mikið. Nú var safnað mönnum og leitað í viku upp á Glerárdal og víðar, en það kom fyrir ekki. En þegar þetta ekki dugði reið faðir barnsins út að Myrká til séra Þórarins, afa séra Þórarins Jónssonar í Múla og Gröndals assessors, því það var trú manna að séra Þórarinn vissi margt og væri margkunnandi. Bóndinn tjáir presti frá hvarfi barnsins. Prestur gengur um gólf í stofunni og hugsar sig um þar til hann segir: „Já, ekki get ég hjálpað þér í þetta sinn, en það get ég sagt þér að barnið er lifandi og fer vel um það. Ég kem inn eftir í vikunni og sé hvernig fer.“ Kallinn fer heim léttari um hjartað og segir konu sinni frá orðum prestsins og þykir henni gott að heyra. En á fimmtudaginn í vikunni kom stúlkan inn og var frísk og kát. Hún er spurð að hvar hún hafi verið. Hún segir þá að þegar hún var að leika sér út á hlaðinu hafi ofurfallegur kvenmaður komið til sín og beðið sig að fara með sér ofurlítinn spöl og kveðst hún hafa farið viljug því henni leizt svo vel á hana. Hún sagði hún hefði leitt sig sér við hönd að hól sem er suður og niður í túninu og fór þar inn og bað hana að rugga barni. Allt sýndist henni fallegt og þokkalegt þar inni. Hún gerði barninu allt til skemmtunar og sýndi henni ýmsa fáséna hluti er hún hvorki fyrr né seinna sá aðra eins. Þarna var hún glöð og ánægð vikuna sem henni fannst sem einn dagur. „En núna áðan,“ segir stúlkan, „kom konan til mín, tekur í hönd mína og segir: „Nú má ég ekki hafa þig lengur mér til ánægju því séra Þórarinn kemur,“ – og fylgdi hún mér heim á hlaðið og fór aftur sinn veg.“ Bóndi faðir hennar gengur þá út og sér hann þá hvar prestur kemur ríðandi utan völlinn og heilsar bónda og spyr hann hvernig gengi. Bóndi segir hvar komið er og kvað prestur það vel fara svo hann ekki þyrfti að fara lengra og hafa meira fyrir því.