Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Barnsvaggan við Húsavíkurkirkju
Barnsvaggan við Húsavíkurkirkju
Það var einu sinni prestur í Húsavík. Hann var einn laugardag að reka saman (ᴐ: smala). Kom þá til hans ókunnug kona í fjallinu og bað hann að skíra fyrir sig barn á morgun; en prestur var ekki á því. Nú var tekið til messu á sunnudaginn og ber ekki neitt á neinu fyrr en um það bil sem prestur er stiginn í stól. Þá kemur meðhjálparinn út og sér fyrir kirkjudyrunum vöggu með barni. Eftir prédikun segir hann presti frá, en prestur segir sig varði ekkert um það og stóð svo vaggan alltaf fyrir kirkjudyrunum til messuloka. Um útklykking kom ókunnuga konan, greip vögguna með barninu, en fleygði ábreiðu ofan af vöggunni inn í kirkjuna og sagði kirkjan skyldi eiga. „En ekki get ég gert við því,“ sagði hún, „þó prestum verði ekki veran í Húsavík hér eftir heilladrjúg til lengdar.“