Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Björgólfur huldukaupmaður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björgólfur huldukaupmaður

Fyrir norðan bjuggu eitt sinn hjón, þau áttu mörg börn, en bjuggu þó vel. Eitt sinn um sumartíma lagði bóndinn af stað í kaupstaðarferð. Leið hans lá yfir langan fjallveg, og sem hann var skammt á fjallveginn kominn féll á níðsvört þoka svo hann gáði ei vegarins og villtist. Svona fór hann um hríð vegvilltur; grillir þá í þokuna og sér hann að maður kemur á móti sér mjög vel klæddur. Þeir finnast og kveður hvor annan. Bóndi spyr hinn að nafni. Hann kveðst Björgólfur heita og vera kaupmaður. „Skaltu,“ segir hann, „verzla nú við mig í þetta sinn.“ Bóndi lét sér það vel líka; síðan fara þeir báðir um hríð unz bóndi sér álengdar fagra hamra; þangað stefnir hinn, og sem þeir eru þangað komnir sér bóndi að þar er mjög fagur kaupstaður. Þarna kaupir bóndi allar sínar nauðsynjar og líkar mjög vel við kaupmanninn huldufólksins. Þegar bóndi er búinn býst hann að kveðja faktor. Hinn mælti: „Þú hefur enn ekki tekið neitt fallegt handa konunni þinni.“ Bóndi kveðst ekki eiga til góða. Hinn gengur burt og kemur aftur með ofurfagurt sjal og brauðkvartél; hann mælti við bónda: „Þetta sjal skaltu færa konu þinni á herðarnar, en brauðkvartilinu skaltu skipta á milli barna þinna nær þú kemur heim.“ Bóndi þakkar honum gjafirnar. Gekk Björgólfur á leið með honum og skildu þeir með vináttu.

Næsta sumar á eftir fer bóndi enn í kaupstað og höndlar enn hjá Björgólfi. Fer nú allt á sömu leið og fyrra sumarið, að hann gefur bónda sömu gjafir. Svo leið nú þetta sumar að ekki bar til tíðinda. Um haustið er kona bónda að skammta í búri; hún heyrir barið á dyr og gengur hún til dyra. Er þar þá kominn Björgólfur kaupmaður og biður hana að koma strax með sér því kona sín liggi á gólfi. Hún hleypur inn til bónda síns og segir honum hver kominn sé og hvers erindis. Hann biður hana að fara strax með honum, „og hafðu með þér skærin þín,“ segir bóndi. Þau fara svo unz þau koma í kaupstað huldukaupmannsins. Hún gengur inn með honum og leggur hendur að konunni svo hún fæðir. Og sem barnið er fætt gengur kaupmaður burt, kemur aftur með smyrslabauk og segir bóndakonu að núa af þessu á augu barnsins, „en varastu,“ segir hann, „að láta það snerta augu þín“. Af þessu kom forvitni í konuna og bregður hún einum fingri sínum á hægra auga sér. Síðan laugar hún barnið og reifar það, býst síðan til heimferðar; gefur kaupmaður henni að skilnaði stórgjafir. Á heimleiðinni fer konan að reyna smurða augað sitt. Sér hún þá með því í jörð og á.

Nú ber ekki til frásagna fyrr en næsta sumar eftir, að bóndakona vill sjálf fara í kaupstað þarna sem þau allan sinn búskap höfðu verið vön að fara til. Bóndi lætur hana ráða. Þegar hún kemur í kaupstaðinn sér hún þá að Björgólfur stendur í krambúðinni fyrir innan borð og hefst ei að. Hún heilsar upp á hann og segir: „Ertú þá hérna?“ Honum bregður kynlega við, hleypur að henni og skyrpir í hægra auga henni. En svo brá henni við að hún eftir þetta sá ei betur með sínu góða auga en hinu.