Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bjarni Thorarensen og sonur hans
Bjarni Thorarensen og sonur hans
Lík saga er sögð um þjóðskáld vort Bjarna Thorarensen er hann var í æsku. Hann ólst upp á Hlíðarenda; en þegar hann var lítill drengur hvarf hann einu sinni og fannst ekki í þrjá eða fjóra daga. Loksins fannst hann langt uppi á heiði, upp með Merkjá, því hann hafði farið upp frá bænum á Hlíðarenda. Sat hann þar uppi á hárri klettasnös með rauða húfu á höfði. Fyrst héldu menn að þetta væri örn; svo hátt var upp þangað er hann sat.[1] Þegar búið var að ná honum þar ofan af með mikilli fyrirhöfn sagði hann að hún móðir sín hefði farið þangað upp með sig.
Viðlíka saga er og sögð um Þórarin son Bjarna amtmanns er hann var barn á Gufunesi, og sagði hann eins frá því með hverjum atvikum hann hefði horfið er hann fannst og var spurður um það. En afleiðingarnar urðu lakari fyrir hann en föður hans því sagt er að Þórarinn sé ekki með öllu ráði síðan.
- ↑ Merkjá er eitt af örnefnunum sem Bjarna þóttu skreyta mest Fljótshlíð í kvæði því sem hann hefur ort með því nafni.