Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Borghildur álfkona

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Borghildur álfkona

Álfaberg heitir klettur mikill, líkur herborg, sem stendur fyrir miðjum botni Borgarfjarðar í Múlasýslu á sléttum mýrum, og mun fjörðurinn draga nafn af borg þessari. Borgin er á að geta 6 til 8 faðma á hæð, en hér um bil 24 faðma að ummáli; er brekka víðast að neðanverðu, en klettar fyrir ofan og þó víða uppgöngur; melur er uppi á borginni og grastorfur.

Álfaborg var hún kölluð af því að það var alþýðu trú að þar væri höfuðból æðstu álfa og höfðingja huldufólks á Austurlandi er var geysimargt. Því trúðu menn einnig að kirkja þessara borgarmanna og sveitunga þeirra væri fremst í þröngum dal sem liggur fram af Borgarfirði og Kækjudalur heitir, þar í steini, og líkist hann mjög húsi í lögun og er nefndur Kirkjusteinn, og þóttust menn oft verða varir að huldufólk reið þangað.

Jökulsá heitir næsti bær fyrir framan Álfastein þeim megin Fjarðarár. Einu sinni bjó þar bóndi sem hélt vinnukonu þá sem Guðrún hét. Einhvern sunnudag um sumar fóru allir þaðan til kirkju að Desjamýri nema vinnukonan; hún var ein heima. Húsmóðir hennar bað hana að skaka og hirða málnytu þegar hún væri búin að smala og mjalta féð. Fór svo fólkið til kirkjunnar, en stúlkan að smala, mjólkaði svo ærnar og hleypti þeim ofan á eyrarnar fyrir neðan bæinn. Eftir það fór hún að matselda og þegar hún hafði lokið búverkum kom hún út á hlað og skyggndist þaðan um bæði eftir ánum og öðru sem fyrir hana bar. Sér hún þá margt fólk ríða fram eftir götunum sem liggja neðan við túnið á Jökulsá. Þessir menn voru margir saman og riðu allir í litklæðum á fjörugum hestum og fallegum. Hana furðar þetta því fremur sem bæði var fólkið farið að utan og svo það hvað seint þetta fólk færi til kirkju. Allir fóru þeir fram hjá bænum nema kona ein; hún reið upp túnið og heim á hlaðið.[1] Þessi kona var göfug ásýndum og sælleg, en hnigin á efra aldur. Hún heilsar stúlkunni og segir: „Gef mér skekna mjólk að drekka, stúlka mín.“ Stúlkan hljóp inn, fyllti trékönnu[2] með áfum og færði henni. En konan tók við og teygaði. Þegar hún gaf upp spurði vinnukonan: „Hvað heitið þér?“ En konan svaraði engu og fór aftur að drekka og drakk annan teyg. Spyr þá vinnukonan hana aftur að sömu spurningu. En konan svarar engu og fer að drekka. Þegar hún hafði drukkið úr könnunni og lagt lokið yfir sér stúlkan að hún fer inn í barm sinn og tekur þaðan fallegan léreftsklút, leggur ofan á könnulokið og fær henni og þakkar henni fyrir. Þá spyr stúlkan enn í þriðja sinn: „Hvað heitið þér?“ „Borghildur heiti ég, forvitna mín.“ segir konan, sló hestinn svipuhögg og reið úr hlaðinu á eftir fólkinu og náði því. En vinnukonan horfði á eftir því og sá það seinast til þess að það reið inn hjá gráum steini utan til í svonefndum Kollutungum; þær liggja fram til Kækjadals. Leið svo og beið þangað til fólkið kom heim um kvöldið frá kirkju, þá sagði vinnukonan frá því sem fyrir sig hefði borið um daginn og sýndi fólkinu klútinn sem henni var gefinn; var hann svo fallegur að enginn þóttist slíkan séð hafa og er sagt hann hafi gengið milli höfðingskvenna á landinu. En reiðfólk það sem vinnukonan sá átti að hafa verið huldufólk úr Álfaborginni og ætlað til kirkju í Kirkjusteininn á Kækjudal.

  1. Jón Bjarnason segir að allt fólkið hafi riðið um hlaðið og fyrstur karlmaður á brúnskjóttum hesti og hafi allir karlmennirnir tekið ofan höfuðföt sín þegjandi til að heilsa stúlkunni sem stóð í bæjardyrunum.
  2. Tinkönnu, Jón Bjarnason.