Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Brauðið er vætt í blóði

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Brauðið er vætt í blóði“

Maður er nefndur Þorgils; hann var greindur og allvel hagmæltur. Hann var smalamaður á bæ einum norður í Þingeyjarsýslu. Einn dag er hann gekk að fé sá hann rjúka upp úr hól nokkrum skammt frá honum. Honum þótti þetta mjög kynlegt og gekk þegar þangað. Sá hann þá glugg einn á hólnum er út rauk um. Hann leit inn um glugginn. Sá hann þá tvær konur í hólnum. Var önnur ungleg, en hin öldruð; þær voru ófrýnilegar mjög og yfirbragð þeirra undarlegt. Hann sá að þær voru að brauðgjörð og var pottur á gólfinu með blóði í og dýfðu þær þar í brauðinu. Sú hin eldri leit út um gluggann og kvað:

Brauðið er vætt í blóði
– brimský át kund margýgjar.
Sandur er silfri blandinn,
sjáandinn horfir á hann.

Svo er sagt að hann hafi séð annan pott á gólfinu fullan með sandi og þótti honum stirna í hann svo sem silfurkorn væri saman við. En sem konan hafði kveðið luktist hóllinn þegar. Þórgils einkenndi hólinn og hlóð þar steinahrúgu. Síðan fóru nokkrir menn um albjartan dag að skoða hólinn með Þórgilsi og sáust þá engi vegsummerki nema sviðinn blettur var þar sem Þórgils sagði glugginn hefði á verið.