Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Depilrassa og niðjar hennar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Depilrassa og niðjar hennar

Í fjöllum fram af Húnavatnssýslu bjó eitt sinn tröllkona sem Depilrassa hét; þótti mönnum hún ill viðureignar því hún stal bæði mönnum og fénaði sér til lífsuppheldis. Einu sinni stal hún manni sem Þorsteinn hét og lét hann lifa hjá sér. Hún átti með honum son; þau nefndu hann Þorstein. Þegar hann var orðinn fulltíða maður fór hann að flakka um fjöllin og kom einu sinni að þar sem haft var í seli úr byggðum. Ein bóndadóttir var í selinu og ekki getið um fleira fólk. Þorsteinn fann stúlku þessa að máli og komst skjótt í kunningsskap við hana svo hann fór að venja göngu sína til hennar.

Eitt sinn kemur Þorsteinn í selið og segir bóndadóttir að móðir sinni sé ekki orðið um komur sínar til hennar og gjöri ráð fyrir að koma og finna hana. Hann leggur henni ráð að hún skyldi hafa til, þegar kerling kæmi, eina tunnu af skyri og nokkuð af mjólk með svo skyldi hún fá henni ausu að matast með, en varast skyldi hún að láta hana kyssa sig, því hún væri vís til að skubba hana um leið. Svo fór hann heim. En nokkru þar á eftir kom kerling. Bóndadóttir gjörði eins og Þorsteinn sagði henni. Kerling vildi kyssa hana fyrir máltíðina, en hún sagði að samur væri kærleikur með þeim þó þær kysstust ekki. Nú fór kerling heim aftur.

Einu sinni kom Þorsteinn í selið til bóndadóttir og kom með þrjá belgi, sagði þetta yrði í síðasta sinn sem hann kæmi til hennar því nú væri móður sín búin að drepa og borða mann sinn og væri orðin svo ill við sig vegna samgöngu þeirra; mundi hún ætla sér sama með sig. „Þú ert nú,“ segir hann, „ólétt eins og þú veizt og muntu ganga með þrjú sveinbörn; þess vegna kem ég með belgi þessa að þú fáir þeim þá þegar þeir eru orðnir fullvaxta; það er föðurarfur þeirra sinn handa hverjum.“ Svo kveður hann hana og fer heim í síðasta sinn, en þegar hann kemur til kellingar ætlar hún að taka hann, en hann flýr þangað sem steinn stóð og þar náði hún honum og drap hann síðan og át. Síðan hefur ekki orðið vart hennar. Þessi steinn sem Þorsteinn flúði að er á Holtavörðuheiði og heitir Hæðarsteinn.

Nú víkur sögunni til bóndadóttur að hún fæddi þrjá sonu; hét einn þeirra Módel, annar Þórir, en hin þriðji er ei nafngreindur. Þegar þeir vóru fullorðnir fekk móður þeirra þeim áðurnefnda belgi sem föðurarfur þeirra var í. Þá vildu þeir ekki vera hjá mönnum, heldur lögðust út og fóru í sitt fellið hver sem kennd vóru við þá síðan. Nokkrum árum seinna fór fólk til messu á jóladag, meðal hverra vóru tvær bóndadætur. Hét önnur þeirra Signý, en ei er getið hvað hin hét; þær vóru svo við kirkjuna; en er úti var fóru þær af stað heim á leið og brast á hríð svo þær vissu ekki hvað þær fóru og ósáttar urðu þær um rétta stefnu þar til þær skilja. Signý gekk lítið eitt þangað til hún kemur að steini nokkrum. Hún settist undir hann; þá sér hún mann koma til sín. Hann heilsar henni. Hún spyr hann að heiti. Hann kveðst heita Módel og segir: „Viltu ég hjálpi þér til byggða?“ Hún játar því, þar hún sá dauðann vísan þar sem hún var. Þá kveðst hann ekki gjöra það nema með því móti hún eigi sig. Hún lofar því. Svo tekur hann hana á handlegg sinn og heldur heim á leið, en þegar hann er kominn með hana heim til hennar segist hann ætla að vitja hennar næsta jóladag og með það kvaddi hann hana og fór á burt.

Nú ber ei neitt til tíðinda fyr en næsta jóladag; þá er drepið á dyr og varð Signý fyrir því að ganga út. Þá var Módel kominn; hann heilsar henni og gengur nú eftir loforði því er áður er um getið. Signý biður hann að lofa sér að sækja inn bækur sínar og kveðja foreldrana. Hann lofar henni það. En þegar hún er komin út til hans aftur lætur hann hana stíga upp í söðul á handlegg sínum og fór sína leið í hellir sinn sem var í áðurnefndu Módelsfelli. Þar bjuggu þau til æviloka.

Einu sinni bað hún hann að lofa sér til foreldra sinna snögga ferð. Hann gjörði það og fór með henni. Þar vóru þau í þrjár nætur og fóru svo heim til sín aftur. En nokkrum árum eftir þetta kom hann með lík hennar til prestsins og bað hann að jarða hana. Prestur gjörði það, en Módel stóð yfir moldum hennar og var stúrinn mjög. Svo fór hann í hellir sinn og sást ekki framar. Er meining sumra manna að hann hafi helsyrgt sig.