Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Drengur elst upp með álfum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Drengur elst upp með álfum

Á einum bæ var einu sinni niðursetupiltur einn er Jón hét, hér um bil sex ára gamall er saga þessi byrjar. Kerling ein tók drenginn að sér til þjónustu og allrar umönnunar. Lágu þau bæði í fjósinu og var þeim færður þangað maturinn. Kerling tók eftir því að drengurinn rétti oft bita og sopa af mat sínum fram á pallskákina. Fer hún þá að spyrja hann um það, en hann segir það sé kona í básnum sem sé að rétta höndina upp á móti. Kerling leggur ekkert til þess, en gjörir slíkt hið sama. Fer svo fram um veturinn. Um vorið eina nótt dreymir kerlingu konu sem þakkar henni hugarlátsamlega fyrir sig og sína og segist ekki geta launað þeim eins og vert væri – „en þar eð ég veit að þú annt drengnum engu minna en sjálfri þér þá vil ég bjóðast til að taka drenginn heim til mín, og vill maðurinn minn sem er prestur hér í byggðarlaginu kenna honum til prests og veita honum alla forsorgun sem börnum okkar“. Þessu játaði kerling í draumnum.

Um morguninn er kerling vaknar er drengurinn horfinn. Þykir henni þetta kynlegt, en hugsar samt út í drauminn. Tíðrætt varð mönnum um hvarf hans, en sló því bráðum í þögn, en alltaf hafði kerling óyndi upp frá því.

Að tíu árum liðnum eða tólf árla morguns einn góðan veðurdag er kerling fyrir utan fjósdyrnar að skvetta úr kollu sinni. Sér hún hvar tveir menn koma vel ríðandi heim völlinn, annar í rauðum kjól á eins litum hesti, annar maður aldraður á dökkum kjól og samlitum hesti. Numdu þeir staðar gagnvart kerlingu og ávörpuðu hana blíðum orðum. Kerling horfði á þá stundarkorn, en féll í grát. „Af hverju grætur þú, kerling mín?“ segir hinn aldraði maður. „Því,“ segir kerling, „að mér sýnist hinn ungi maður svo násvipaður drengnum sem hvarf frá mér forðum.“ „Það er rétt sem þér sýnist, fóstra mín,“ segir rauður, „og þetta er síra Ásmundur fóstri minn. Er hann nú búinn að kenna mér til prestskapar, en ætlar að vígja mig á morgun og undireins vígja okkur Álfrúnu dóttur sína saman og mig. Nú býð ég þér heim til mín, en bregtu þér snöggvast inn í bæ og segðu hvað ævi minni hefir liðið og hvernig nú er komið.“ Kerling fór nú á stað og halda menn að hugurinn hafi borið hana hálfa leið; kom svo aftur að vörmu spori. Setti hann fóstru sína á bak fyrir aftan sig og hurfu þeir síðan. – En hvort hún hefir munað eftir að flytja með sér kollu sína, þar um er ekki getið.