Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Einar í Skaftafelli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Einar í Skaftafelli

Í Skaftafelli er sagt að mjög lengi hafi búið sami ættleggur, en helzt er getið eins manns er Einar hét sökum ýmsra atriða. Fyrst að eitt sinn er hann fór á fjöru sína með marga hesta eftir trjám þá hafi hann hitt stórkonu sem að beiddi hann um reiðslu sökum lasleika síns og hafi hann verið tregur til, en fyrir þrábeiðni hennar leyfði henni að fara á bak aftasta hestinum með því móti hann yrði jafngóður, og hafi hún þá á sömu stundu fætt barn og tekið í kjöltu sína og farið síðan á bak og setið á hestinum þar til svo var nærri bæ hans að ekki varð lengur án þess að aðrir yrði varir við og hesturinn jafngóður. En að skilnaði hafi hún þakkað hönum mörgum fögrum orðum og sagt hönum að ómaka sig ekki á fjöru til selveiði nema hún benti hönum, en hann skyldi gefa sér bita ef vel heppnaðist og skyldi hann liggja eftir á fjörunni hvurt sinn því hún mundi passa að hirða það sem eftir lægi. Og upp frá þeim tíma hefði hann aldrei farið nema þegar hans tími var þó aðrir vildi fara og færi, en aldrei brugðizt kjörveiði þegar hann fór. Líka er sagt hann hafi ekki kostað til hirðingar á því fé sem fjærst var, þar hún bjó nær því en hann, en hann hafi sagt henni að taka sér í soðið þegar hún væri svo stödd að hún þyrfti með, en það fé hafi fært hönum mestan arð. En alltaf skildi hann eftir tvo stærstu selina á fjörunni og líka er þess getið að hún hefði boðið hönum ef hönum lægi á skyldi hann leita til sín með ráð (fjárgeymslan), og er það mælt hún hafi oft komið til hans í smiðjuna á kvöldin og verið þar í ráðum þar hann smíðaði marga fáséða gripi sem hér er ekki venja til, einkum byssu eina sem sagt er að hafi komið til af því að hann vildi fá keypta byssu og fékk, en sagði ónýta og sagðist geta sjálfur búið til aðra betri og hefði veðjað við kafteininn sem hafði byssuna til sölu, 50 rd, og að ári liðnu skyldi báðar verða reyndar, og þá reyndist sú íslenzka betur.

Í öðru sinni er sagt hann hafi veðjað við kaftein og sagt hann lægi við ónýtt tó og hafi kafteinn sagt hann skyldi hafa annað betra til að ári og hafi þeir veðjað um 100 rd, en til að sýna Einari að tóið væri ekki ónýtt þá setti hann til segl og reyndi svoleiðis á tóið þar til það hrökk sundur. En að ári liðnu skyldi Einar hafa sitt tilbúið. Er svo sagt hann ynni það úr verkuðu togi sem hann fékk hjá sér og nábúum sínum, kom svo með það að ári liðnu og var þá mjórra en það útlenzka. En er kafteinn reyndi það upp á sama máta og fyr þá tognaði það til þriðjunga og hrökk saman aftur.

En seinast er þess getið að hann væri á laugardagskvöldi í smiðju sinni sem oftar og væri að smíða mathnífa handa fólki sínu og þá hafi menn orðið varir við að vinkona hans væri hjá hönum, en er hann kom til lesturs afhenti [hann] hvurjum sinn hníf og sagði hvurjum að njóta vel og það með að þetta yrði sín seinasta smíði því hann lifði nú ekki út næsta dag. En á sunnudeginum biður hann að snemma sé lesið svo hann megi njóta þess í síðasta sinni að heyra lestur; en þó þetta þækti ekki líklegt þar hann virtist heilbrigður er það samt gjört að bón hans svo búið var að lesa að liðnu hádegi. Að því búnu gjörir hann ráðstöfun sem henta þókti, kvaddi síðan fólk sitt í seinasta sinn og beiddi um föt sem hann lagði fyrir að ekki skyldi færast af sér látnum, lagðist síðan í rúm sitt og andaðist um miðmunda bil án þess menn sæi hann kenna sóttar. En er hann var jarðaður sá almenningur hana koma að kirkjugarðinum með miklum harmi.