Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Eyjólfur og álfkonan

Maður nokkur Eyjólfur að nafni af Bustarfellsætt var að sjóróðrum hausttíma í Geirfuglaskeri. Einhverra orsaka vegna varð [hann] eitt sinn eftir í skerinu þá er skipverjar héldu til lands. Sagt er að hann hafi dvalið í skerinu um veturinn með huldufólki og lagzt á hugi við álfakvenmann, en er veturinn leið bjóst hann aftur til lands. En að skilnaði þá sagði álfkonan honum að hún væri þunguð af hans völdum og ef svo færi að hún léti flytja barn til sóknarkirkju hans bað hún hann að sjá um það yrði skírt, en ef hann brygði af þessu kvað hún það mundi olla honum og afkomendum hans auðnuleysis. Síðan skildu þau, en eftir vissan tíma sást reifastrangi lagður á kirkjugarðinn á sóknarkirkju Eyjólfs (sem sumir segja væri að Reykholti) og fylgdi með honum hökulefnisböggull. Prestur sá er þar var á staðnum spurði hvert nokkur vissi deili á reifastranga þessum, en Eyjólfur sem var þar staddur við kirkjuna lézt ekkert um það vita, og þá vildi prestur ekki skíra barnið. Mælt er þá hafi heyrzt grátur, en enginn sézt og barnið horfið, en böggullinn varð eftir. Álög álfkonunnar þóttu rætast á Eyjólfi og kynsmönnum hans.