Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Eyjólfur vinnumaður og álfkonan

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Eyjólfur vinnumaður og álfkonan

Fyrir löngu síðan var prestur á Húsavík sem hafði þann annmarka á lífernisháttum sínum að hann hvarf burt af heimili sínu hverja nýársdagsnótt svo enginn vissi hvað hann fór, og fór svo fram um nokkur ár, en altíð var hann kominn heim nýársmorguninn.

Á einu vori réði hann til sín vinnumann að nafni Eyjólf. Hann þókti vera afburðamaður um flesta hluti bæði hagur og vinnumikill og því hinn bezti verkstjóri og íþróttamaður. Eyjólfur [var] því ekki fjarri að fara til prests, því hann sókti fast eftir, ef hann lofaði sér að vita hvert hann færi gamlaárskvöldið. Prestur tók hvergi af því, en lofaði þó ekki. Samt varð það úr að Eyjólfur fór til prests. Liðu svo stundir svo ei bar til tíðinda um sumarið og veturinn fram að nýári. En seinustu daga ársins, helzt sjálft gamlaárskvöld, passaði Eyvi upp á að fylgja presti eftir, hvað sem hann veik sér, og þegar leið fram á kvöldið gekk prestur ofan og Eyjólfur strax á eftir. Var þá prestur kominn út og búinn til burtferðar. Eyvi býr sig til að fara líka. En þegar prestur sér það biður hann Eyjólf gjöra það fyrir sig að vera kyrran heima. En þess var enginn kostur og þegar prestur sá að ekki tjáði annað en hann færi segir prestur við hann: „Ef að þú vilt endilega fara með mér þrátt fyrir mína þökk sem þér er þó óþarft þá mundu mig það að gjörðu allt eins og þú sér mig gera og má þá vera að þú komist hjá því að hafa óhapp af ofurkappi þínu og þrályndisforvitni og ábyrgstu þig sjálfur fyrst þú vilt ekki annað en fara.“ Eyvi lét ekki letjast og með það fara þeir leiðar sinnar og segir ekki af ferð þeirra fyr en þeir komu að steini einum miklum og prestur klappaði þar upp á og brátt var lokið upp. Þar kom út kvenmaður og tók hún presti kunnuglega og fylgdi honum inn og Eyjólfur gekk inn líka. Þar er ei getið fleiri manna en þar vóru tvær konur, önnur eldri. Síðan var þeim sett borð og veitt vel bæði matur og drykkur og vóru konurnar glaðar og skemmtilegar. Leið svo kvöldið í glaum og glaðværð til þess konurnar bjuggu rekkjur sínar, og háttaði eldri konan hjá presti, en sú yngri vísaði Eyjólfi að hátta í hinu rúminu; rekkjur vóru ekki nema tvær. „Hvar ætlar þú að sofa?“ spyr hann. „Hjá þér,“ segir hún. „Ekki hef ég hingað til stolið kvenmanni,“ segir hann, „og mun ekki heldur hér eftir.“ „Ekki skal þá nauðga þér til að sofa hjá mér,“ segir hún, „en héðan af skaltu aldrei óstelandi vera.“ Ekki er fleiri orða þeirra getið né atburða þar um nóttina, og um morguninn fóru þeir heim. En brátt fór að verða vart við að Eyjólfur var orðinn umbreytilegur í háttum sínum því nú stal hann öllu sem steini var léttara; svo rak prestur hann burtu og svo fór hann stelandi og strjúkandi sveit úr sveit og um sumarið var hann kominn vestur í Langadal og stal þar nú sem annars staðar, en var eltur á hesti, en Eyjólfur var vel sundfær maður og fleygði sér til sunds í Blöndu, en sá sem elti hann gat kallað yfir ána svo honum vóru varin bæði lönd þar til hann drukknaði.