Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fólkið undir jörðinni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Fólkið undir jörðinni

Einu sinni var fátækur maður sem átti fjölda barna. Hann var siðsamur og guðhræddur. Eitt haust var hann matarlítill og fór til kaupstaðar að sækja korn á bakinu, en vegurinn var tvær dagleiðir. Á heimleiðinni gjörði á fjúk og dimmviðri svo maðurinn villtist. Þá kom hann að stórum steini og var skúti undir á einum stað. Þar lagðist maðurinn niður, sneri sér frá berginu og vildi bíða dags. Um nóttina varð hann þess var að hann valt oftan eftir. Hann stóð upp og var þar í níðamyrkri; þó hann þreifaði fyrir sér fann hann allt tómt. Rólaði hann þá áfram og fann hæð nokkra mjög sleipa; þar klifraði hann yfir og sér nú ljóstíru í fjarska. Hann gekk á tíruna; hverfur hún ýmist eða bregður fyrir. Hann gengur þar til hann kemur að vatni og sér að tíran er hinumegin. Nú kallar hann og biður sækja sig. Skömmu seinna kemur maður á báti, tekur hann og flytur yfrum. Þar voru nokkrir menn er veiddu silung úr vatninu. Þeir voru allir fálátir. Hann spurði þá einkis og þeir eigi heldur hann. Að stundu liðinni gengu þeir heim og hann með þeim. Þeir komu þar að litlum húsum og leiddu gestinn inn. Ekki sá hann þar annað manna en sjö kvenmenn og sjö kallmenn. Um kvöldið var honum vísað til rúms og svaf einn heimamaður hjá honum. Þarna var bóndi hjá þessum mönnum allan vetur[inn], spurði einkis og var einkis spurður. Þar var alla tíð myrkur og allt unnið við vaxljós sem loguðu nótt og dag. Ekki var annað til matar en silungur.

Undir vorið talar rekkjunautur bónda við hann einhverju sinni og segir: „Þú hefir verið hér hjá oss með mikilli siðsemi, hefir hagað þér vel og einkis spurt um hagi okkar. Áður hafa hingað villzt nokkrir menn, en voru flestir spurulir og ósiðsamir svo vér rákum þá frá oss og hafa þeir týnzt. Þetta fólk er hingað komið á sama hátt og þú, að það hefir oltið ofan með stóra steininum niðrí þenna myrkheim, og sést hér aldrei dagsljós. Vér höfum ei sótt eftir að fara upp á jörðina því oss þótti þar illt að vera meðal vondra manna. En þú ert góður maður og vildum vér gjarna þú dveldir með oss, en vér vitum þú átt góða konu og góð börn. Því viljum vér leyfa þér upp til þeirra; þau þurfa og þinnar forsjár. Hæðin sleipa sem þú klifraðir yfir er dreki á gulli. Hann er hið versta forað og aldrei fært yfir hann að komast til uppgöngunnar nema tvisvar á ári, því þá sefur hann. Nú er annar sá tími er hann sefur og skaltu nota þá stund. Mun ég fylgja þér að myrkheimsdyrum.“

Bóndi þakkar lagsmanni sínum þessa góðvild og fer nú með honum af stað eftir að hann hafði kvatt heimafólkið og þakkað fyrir veturvistina. Þeir fara yfir vatnið og til drekans. Þar skilja þeir og kveðjast vinsamlega. Bóndi klifrar yfir orminn og finnur uppgönguna. Bagginn og stafur hans voru enn undir steininum; hann tekur hvorttveggja og heldur heim til sín. Konan og börnin urðu sárfegin að sjá hann því allir héldu hann löngu dauðan. Góðir nágrannar höfðu gefið konu hans og börnum uppeldi um veturinn svo enginn leið nauð. Eftir þetta blessaðist bóndi ár frá ári betur og var alla sína daga góður maður og ráðvandur, guðhræddur og þakklátur við guð og menn.