Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ferming hjá huldufólki

Á Móafelli í Fljótum bjó eitt sinn ekkja ein; ég ætla hún héti Anna. Hún átti dætur tvær og son einn sem Jón hét. Hann var fremur gáfutregur og atgjörvislítill til sálar og líkama. Þegar þær stúlkur eru á 17. og 18. ári en Jón á 14. var það einn dag í þoku um haustið að þær Móafellssystur fóru til grasa fram á Móafellsdal. Voru þær þar um miðjan daginn á einum mó fyrir austan ána. Sáu þær þá hvar tvær stúlkur voru við grös á öðrum mó. Innan skamms bar fundum þeirra saman og þekktu Móafellssystur ekki stúlkurnar. Spurðu þær þær hvar þær ættu heima og sögðust þær eiga heima ekki langt í burtu, en ekki vildu þær greinilega segja nafn sitt né heimili. Nú talast þær ýmislegt við; meðal annars spyrja aðkomustúlkurnar Móafellssystur hvort þau séu ekki fleiri systkinin, og segjast þær þá eiga bróður á 14. ári. „Því fór hann ekki með ykkur til grasanna?“ „Æ, hann er þetta si sona ofur bjálfalegur,“ segja Móafellssystur og tjá nú hið ljósasta frá atgjörvisleysi hans til líkama og sálar. „Æi, lofiði honum nú með ykkur þegar þið farið næst til grasa; okkur þækti ósköp gaman að sjá hann,“ segja hinar.

Nokkru eftir þetta fara Móafellssystur aftur til grasa og hafa nú Jón bróður sinn með sér. Fara þær nú hér um á sömu stöðvar; var þá sótþoka. Finna þær þar þá stúlkurnar ókunnugu. Biðja þær að lofa Jóni heim með sér, það skuli ekki verða að honum – „en ekki skulu þið undrast um hann þó hann komi ekki strax aftur.“ Þetta eftirlétu þær systur, enda var Jóni viljugt að fara.

Nú líða tímar svo að Jón kemur ekki heim að Móafelli, en ekki var samt hvarf hans alkunnugt, allt þar til á sunnudagsmorguninn í föstuinngang að drengur kemur sparibúinn að Móafelli og fer til kirkju að Hnappsstöðum; er messað þar um daginn. Þegar prestur fer að spyrja börn gengur drengur fram á kirkjugólfið og lætur spyrja sig. Furðar þá marga á hvað drengnum gengur vel að svara. Nú hverfur drengur aftur frá Móafelli og kemur ekki fyrri en á skírdagsmorgun, sparibúinn og fer til kirkjunnar. Er hann nú spurður og gengur vel. Eftir messuna nefndi drengur við séra Ólaf að ferma sig, en séra Ólafur var fremur tregur til, þókti drengur hafa sjaldan komið til kirkju, vildi vita hver hefði kennt honum og fleira, og lauk svo að drengur fékk ekkert loforð um ferminguna. Fer nú drengur enn á stað og kemur ekki við á Móafelli. Á laugardaginn fyrir páska er barið að dyrum á Móafelli. Kemur þar út önnur systirin. Er þá önnur ókunnuga stúlkan komin og biður þær systur að koma snemma í fyrramálið fram á móinn þann í haust á dalnum og vera þá sparibúnar. Á páskadagsmorguninn snemma búa þær systur sig í beztu fötin sín og ganga fram á móinn, en hann var rétt á móti klettum sem kallaðir eru Valshamar. Kemur þá sama stúlkan til þeirra og biður þær að koma með sér yfrum ána. Fara þær nú yfrum ána og koma þar að stórum og glæsilegum kirkjustað. Er þeim þar boðið inn og tekið mjög ástúðlega. Segjast nú stúlkurnar vera dætur prestsins hérna og eigi nú að ferma Jón litla í dag. Nú fara þær Móafellssystur í kirkju; er þar haldin guðsþjónusta og börn fermd um daginn. Er Jón bróðir þeirra innstur af fermingarbörnunum; var margt fólk í kirkjunni. Ekki skildu þær systur það sem yfir var haft í kirkjunni, því það var þeim ókunnugt tungumál, en það sáu þær á öllu að það voru kristnir siðir enda heyrðu þær oft Jesús nefndan. Eftir messuna sagði Jón þeim systrum sínum að sín væri ekki von heim að Móafelli aftur. Og liðu nú nokkur ár; þá kom Jón eitt sinn að Móafelli og bauð þeim systrum og móður sinni í brúðkaup sitt; kvaðst hann nú ætla að eiga aðra prestsdótturina. Fóru þær nú mæðgur í brúðkaupið. Gekk það allt af með unun og viðhöfn. Eftir þetta kom Jón aldrei meir til mannabyggðar, og lýkur svo þessari sögu.

Annars er almenn trú að mikið huldufólk sé bæði á Móafellsdal og Tungudal sem eru óbyggðir dalir í Stíflu.