Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fimmtíu barna faðir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fimmtíu barna faðir

Þá var það einu sinni að kona nokkur var hrædd um að barn sitt væri orðið að umskiptingi. Hún fer þá til vin- og grannkonu sinnar og leitar ráða hjá henni. Hin segir að hún skuli taka fimmtán álna langa stöng og láta annan enda hennar í lítinn pott, setja barnið svo hjá ferlíki þessu, en vera í leyni og vita hvört því verði ekkert að orði er hún geti af ráðið hvors kyns muni vera, og heyri hún það eitthvað mæla er gefi henni grun um að það sé umskiptingur skuli hún taka það og hýða með vendi þangað til það sé nærri dautt. Nú gjörir hin eins og henni var ráðlagt, lætur stöngina í pottinn, setur barnið hjá og hlustar á í leyni.

Að lítilli stundu liðinni átti barnið þá að hafa mælt: „Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá, fimmtíu barna faðir og sjötíu barna afi, og hefi ég þó aldrei séð svo langa stöng í svo lítilli grýtu.“ Síðan tekur konan barnið og flengir það vægðarlaust, en þegar hún er búin að hýða það svo að hún ætlar því varla líf kemur kona með barn, fleygir því, en grípur hitt og mælir af miklum móði: „Misjafnt höfumst við að, móðir þín og ég, hún hýðir kall minn, en ég dilla þér.“