Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Flutningurinn

Á ofanverðri 18. öld bjó í Hvammi í Mýrdal bóndi sá er Jón hét. Hann átti mörg börn og var þá gamall er saga þessi gjörðist; var hann hjá einum syni sínum og kona hans með honum. Í landnorðri frá Hvammabæjunum er gil bæði langt og djúpt er Hvammsgil heitir. En austur frá Hvammi eru bæir tveir er Götur heita; er brúnin fyrir ofan þá almennt kölluð í daglegu máli Gatnabrún.

Einn dag um hausttíma í góðu veðri bar svo við, þegar komið var kvöld og fólk ætlaði að fara að hátta, stóð fyrrnefndur Jón í skemmudyrum; kom þá kona hans að honum og bað hann koma að hátta. Hann sinnti því lítið, en horfði stöðugt austur að Götum eða í þá átt, og svo háttaði allt fólkið á bænum, en hann stóð þar sem hann var kominn í sömu sporum langt fram á nótt. En að morgni sagði hann konu sinni að þegar hann ætlaði að fara að hátta varð hönum litið austur að Götum; sá hann þá koma tvo menn ofan Gatnabrún og sýndist honum þeir bera milli sín því líkast sem skriðljós væri. Þeir stefndu inn í Hvammsgil. Síðan sá hann koma fólk í flokkum, alltaf fleira og fleira, bæði karlar og konur. Sumir leiddu börn, sumir báru byrðar stærri og smærri, og þar kom að hann sá fluttan alls konar flutning og að síðustu alls konar fénað. Allt þetta fór hina sömu leið sem þeir tveir fyrstu. Jafnvel var því líkast sem sumir héldu á eldi eða ljósi undir hendinni. Þetta þótti bónda undarlegt og því beið hann þar til allt þetta var að mestu að öllu hjá farið. En veturinn eftir þetta haust var orðlagður fyrir hörkur, storma og krassaveður, mest af útsuðri.

Oftar um haustið sást líkur flutningur þessu sem nú var frá sagt, en aldrei jafnmikið í senn. Og jafnvel sá þessi sami bóndi og enda fleiri um vorið að líkur flutningur hefði farið til baka hinn sama veg, og var það því tilgáta sumra manna að þessar verur sem sáust hafi vitað fyrir þennan illviðravetur og flutt sig því, máske úr Reynisfjalli, inn í áðurnefnt Hvammsgil og þótt þar skýlla. En hitt er víst að tilburðurinn er sannur þó enginn geti með vissu sagt hvörnin á honum stendur.