Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Frá Eyjólfi og álfkonu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Frá Eyjólfi og álfkonu

Gunnlaugur pr. Þorsteinsson er annálinn reit bjó að Ytra-Vallholti í Vallhólmi í Hegranesþingi. Söng hann tíðir á Víðimýri og Flugumýri yfir 36 ár.[1] Prestur var einrænligur og haldinn margfróður; hvarf hann löngum, einkum á nóttum, og var því trúað að hann dveldist þá með álfum. Sá ungur maður var á vist með presti er Eyjólfur hét, allmannvænlegur og þótti gott mannsefni, og var presti vel til hans. Það var oft að Eyjólfur bað prest að lofa sér með sér í leyniferðir þær er prestur fór. Prestur var alltregur til og kvað eigi víst að honum yrði til hamingju. Eyjólfur vildi eigi það heyra og sótti á því fastara. Leiddist presti nauð hans og hét honum förinni með kostum þeim að hann breytti þá að öllu eftir sér og gætti þess sem vandlegast að bregða út af því í engu. Hét Eyjólfur því. Síðan fór Eyjólfur með presti nýjársdagsnótt fram til Skiphóls við Vindheimamela og er þeir komu þar opnaðist hóllinn fyrir þeim. Komu þeir þar í herbergi fagurt; voru þar fyrir tvær konur, önnur við aldur, en þó in erriligasta og væn álitum; önnur var mær ein fögur, þó gjafvaxta að sjá. Fagnaði eldri konan presti báðum höndum; en báðum var þeim presti vist borin hin bezta og að öllu farið sem hæverskligast. Síðan vóru tvær rekkjur búnar og steig þegar prestur og in eldri konan í aðra.. Hin yngri afklæddi og sig allt að nærfötum þá hún hafði þjónað þeim presti til sængur, steig upp í aðra rekkjuna og spyr ef Eyjólfur vill hvíla sig þar hjá sér. Hann þagði við; bað hún hann þá blíðlega og tók hönd hans að hvílast hjá sér. Eyjólfur svarar þá styggilega: „Ég stel engu þó ég standi hérna.“ Reiddist hún þá og mælti: „Vertu þá héðan af aldrei óstelandi.“ Prestur mælti: „Nokkra bót muntu þó vilja við leggja?“ – „Vera má það fyrir þín orð prestur og sakir móður minnar að ég læt það um mælt að engin snara haldi honum.“ En prestur vítti Eyjólf um óhlýðni sína og heitrof. Fór hann þegar úr hólnum um nóttina og heim í Vallholt. – Er það sagt að þegar tók Eyjólfur að stela og strjúka; varð hann þá oft tekinn og átti að hengja, en engi snara hélt honum, en það er sagt að lyktum frá Eyjólfi að Húnvetningar gripu hann og festu upp hjá Svarthamri við Blöndu. Fór þá sem fyrri að snaran brast og ærðist hann þá svo að hann stökk í Blöndu og drukknaði.

Það segja sumir að eftir það Eyjólfur slitnaði úr snöru á Svarthamri við Blöndu næðist hann aftur og ætti þá enn að hengja hann út nær við Blönduós og fær þá enn sem jafnan, að snaran slitnaði, en Eyjólfur kastaði sér til sunds á ána, en maður einn varpaði að honum steini og hæfði höfuð hans, og lézt hann þar.

  1. Séra Gunnlaugur Þorsteinsson varð aðstoðarprestur í Glaumbæ 1630 og hélt Víðimýrarsókn, fékk síðar til viðbótar Flugumýrarsókn, sleppti Víðimýrarsókn 1668, d. 1674.