Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Geirlaugar saga

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Geirlaugar saga

Nær miðri 17. öld buggu fátæk hjón á Hóli í Garðssókn í Kelduhverfi. Áttu þau tvær dætur er hétu Sigríður og Geirlaug. Ása hét móðir þeirra og unni hún mjög eldri dótturinni Sigríði, en amaðist mjög við Geirlaugu og er þó ei getið hvað til bæri. Þá var títt sem lengi síðar að sækja tíðir á jólanóttu og þurrkaðist fólk so af bæjum í færu veðri að varla fekkst einn til nema skipað væri með valdi að vera heima til að annast nauðsynlegustu málaverk, og vildi Ása kerling jafnan koma því á Geirlaugu dóttur sína því hún hafði hana í öllu mjög út undan, en af því faðir hennar og systir voru vel til hennar gátu þau séð so til að Sigríður varð oftast heima með henni og bar þá aldrei neitt til tíðinda.

Nú líður og bíður unz maður kemur frá Laugum í Reykjadal og biður Sigríðar og fær hennar, og fer hún þangað með honum til búsforráða og verður henni það vel í höndum. Nú hugsar Ása kerling Geirlaugu þegjandi þörfina að nú skuli hún mega til að dúsa ein heima á næstu jólanótt hvert henni þyki ljúft eða leitt. Geirlaug hefur nú líka, sem von er, kvíðagrun á þessu og nokkru eftir veturnætur biður hún kerlingu að lofa sér á kynnisleit eða í orlof til systur sinnar, og verður það loks fyri tillögur föður hennnr að kerling lætur það til; þó leggur hún henni fyrir blátt bann að vera ei á braut alls nema viku og er þó leiðin nær tvær dagleiðir um skammdegið so ei mátti hún nema þrjár nætur mest um kyrrt sita hjá systur sinni og sjálf varð Geirlaug að skaffa sér skó til ferðanna áfram og aftur.

Nú fer Geirlaug af stað og tekst vel ferðin og tekur systir hennar sem bezt við henni, en þykir hún þó allt um skammt mega með sér vera. Geirlaug ber nú upp raunatölur sínar fyri Sigríði og kveðst nú víst vita að nú komist hún ekki undan að vera ein heima á jólanóttina og biður nú systur sína veita sér ásjá og góð ráð og vill hún gera allt ið bezta er hún kunni í því. Síðan gefur Sigríður henni mjöl í skjóðu og flot og tólk, en biður hana að láta ekki móður sína sjá það so ei taki hún það frá henni og segir hún skuli úr mjölinu gera sér flatbrauð (= kökur) og steikja þær í flotinu, en úr sumu flotinu skuli hún búa sér til kyndla og fá sér krákuskeljar til að láta kyndlakveikana loga í og setja þetta á tiltekna staði í bænum á jólanóttina so bjart sé um allan bæinn, en áður skuli hún þó lesa jólanóttarlesturinn og syngja fáein jólavers og síðan þegar hún hafi allt þetta unnið skuli hún halla sér út af og vera óhrædd þó eitthvað kunni fyrir hana að bera.

Eftir það fær Sigríður henni nesti og nýja skó, og skilja so í kærleika, og getur ei um ferð Geirlaugar unz hún kemur heim í rökkrinu og getur falið í taðhlaða mjölbelginn og hitt er Sigríður gaf henni, og líður nú til jóla fram; og segir nú Ása á aðfangadagskveldið að nú skuli Geirlaug þó ein heima sita, nú geti Sigga ekki mælt hana undan því, og verður nú so að vera sem kerling vill. En er Geirlaug er ein orðin fer hún að öllu sem systir hennar lagði henni ráð til, og sem hún hefir það allt unnið sem henni var kennt, lesið og sungið og kveikt ljós í göngunum með ljósmeti því er systir hennar gaf henni (því móðir hennar fekk henni ekkert ljós nema sem tíra mætti hálfa kvöldvöku), hnoðað og bakað brauð úr mjölinu, fer hún að hugsa hvað hún eigi nú að gera sér til nenningar og afþreyingar. Tekur hún þá matdiska (= matarföt) foreldra sinna og sinn, er vant var að skammta á jólamatinn, og sneiðir niður brauðið og leggur það so á alla diskana sem jafnast og smjör- og flotsneiðar með og setur þá síðan frá sér. Síðan gengur hún fram og gerir að öllum ljósunum í bæjar- og baðstofugöngum og hefir sem nærri má geta sílokaðan bæinn. Síðan fer hún upp á rúm sitt er var til hliðar á framanverðum palli sem varð til hægri hliðar þegar inn var gengið í baðstofuna. Ljós brann í baðstofunni, en er hún hefir legið so um hríð heyrist henni hark og dump frammi og litlu síðar koma inn í baðstofuna þrír drenghnokkar ekki ófélegir og leggja kanann (ᴐ: hökuna) upp á pallslána og góna á hana, en tala ekki. Geirlaug verður hálfhrædd; þó verður henni það fyrir að hún seilist upp á hillu fyrir ofan sig og tekur þar ofan matarfötin þrjú og réttir fram á pallskákina að sveinunum. Þeir grípa við þeim báðum höndum og hlaupa fram með þau þegjandi, en sem þeir eru út farnir setur sorg og hugsýki að Geirlaugu yfir því að nú verði kerling móðir sín bálreið við sig af því að hún hafi týnt matfötunum, og er nú ráðalaus hvað hún eigi að segja. En er hún hefir um hríð hugraunazt af þessu veit hún ei til fyrr en einn drengsnáðinn kemur hlaupandi inn í baðstofuna og setur öll fötin tæmd á pallslána, og gleðst hún mjög af þessu. Lítilli stundu síðar heyrir hún mikinn umgang og mannmælgi frammi og heyrir hún að sá sem á undan gengur segir: „Hér er vel um gengið, hér á víst að lýsa okkur. Hér mun vera fámennt og góðmennt.“ Geirlaug grúfir sig nú niður upp í rúmshorni, en sér þó út undan brekanshorninu að margt fólk kemur inn í baðstofuna og fer upp á pallinn og yfir í baðstofuna so hún er þéttskipuð. Síðan setur það fram borð og ber á dýra rétti og drykki góða að henni virtist. En maður mikill og öldurmannlegur sat annnars vegar efst við borðið og kona roskin honum ið næsta og þóttist hún sjá að hann mundi yfirmaður þessa fólks. En er það hafði etið og drukkið um hríð tekur það að leika ýmsa skemmtileiki, en þessi fyrimaður sezt undir glugg er var mót austri og hyggur þar út smám saman og segir so: „Enn má leika, ekki er enn dagur yfir Jórsölum.“ En er leið að degi segir hann: „Nú er ei tíð að leika lengur, nú rennur þegar dagur yfir Jórsölum.“ Og er hann mælti so slær öllu í þögn; er þá upp tekið borðið og hirt allt er á var og síðan þyss allt fólkið ofan og fram og seinast þessi höfðingi þess og hin roskna og ráðsetta konan; en um leið og hún fer ofan af pallinum leggur hún samvafinn böggul á höfðalag Geirlaugar og segir: „Eig þú þetta, Geirlaug mín, fyrir það sem þú gafst börnunum mínum. Og mæli ég so um að móður þinni skal ekki takast þó hún vili að taka hann frá þér, og mun þetta upphaf gæfu þinnar.“ Síðan fer hún ofan og út eftir hinu fólkinu. En Geirlaug liggur eftir og er nú í góðum huga. Rekur hún nú sundur böggulinn og er þar innan í ið dýrasta klæðispils af skarlati og upphlutur því samboðinn.

Nú líður að morgni og koma feðgin Geirlaugar heim og hefir Geirlaug ei önnur ráð en að segja sem gerst af því er gengið hafði, alla söguna – og sýnir nú klæðisfatið, en hermir þó ei ummæli álfkonunnar. En er Ása hefir skoðað fatið dýra segir hún: „Þetta fat er ekki við þitt hæfi og [þú] verður aldrei kona verðug það að bera. Álfkonan hefir aldrei gefið né ætlað þér það, heldur mér, og er ekki heldur meir en makligt fyri það sem hún fór inn í hús mín ólofað með allt hyski sitt og notaði þau í óheimild þeirra sem áttu, enda veit ég hvað ég skal gera við kvenfatnað þenna so aldrei njótir þú hans fyrr né síðar; ég skal selja hann prestskonunni hérna í Garði því hér er engi kona í þessi sókn hæfari að bera hann á hátíðum.“ Geirlaug þorir hér ekki í móti að mæla, en faðir hennar var ætíð aðkvæðalítill og leggur hann ekkert orð þar í til að móðga ekki kerlingu sína, en hún tekur klæðnaðinn undir sín skinn og fer með hann á gamlaársdag að Garði og selur hann prestskonunni þar. En á nýársmorgun er fataböggullinn aftur horfinn í rúm Geirlaugar eins samanvafinn eins og þegar álfkonan lagði hann þar í fyrstu. Ása segist ei skuli hætta að heldur og tekur aftur fatastrangann, því hún var búin að taka borgunina fyri hann, og færir hann aftur prestskonunni; en það fer á sömu leið, að hann er að morgni horfinn í rúm Geirlaugar, og um nóttina sömu dreymir Ásu að kona komi að sér heldur svipmikil og reiðuglig og segir við hana að ef hún ekki hætti að taka fötin af Geirlaugu þá skyldi hún sig sjálfa fyrir hitta; so nú þorir kerling ekki annað en láta allt kyrrt vera.

Nú líður og bíður so ei ber til tíðinda unz kemur in næsta jólanótt; þá segir kerling að nú sé bezt að Geirlaug fái það sem hún hafi lengi sókzt eftir, sem sé að fara til jólatíðanna, „og skal ég nú sjálf heima vera og geyma hús mín,“ og verður so að vera sem hún vill. Fara nú þau feðgin (ᴐ: faðir og dóttir) til tíða og annað heimafólk sem ei var margt. En frá Ásu er það að segja að hún hefir sína heimasiðu að vanda, kveikir engi ljós nema yfir sér í baðstofu og þegar komið er dagsetur fer hún að leggja sig fyrir í rúmi Geirlaugar annars vegar á pallinum; en að stundu liðinni heyrir hún umgang í dyragöngum og því næst sér sveina þrjá koma inn á gólfið og leggja hökukanann upp á pallslána þegjandi; kerling verður fá við og talar til þeirra af styggð og spyr hvað þeir vili slæpast hér, þeir skuli skammast fram og út aftur, og þegar þeir ei gegna henni so skjótt sem hún vill tekur Ása eldhússvuntu sína allsauruga og slær henni höstugliga fram á pallslána og framan í sveinana og segir þeir skuli skammast út og heim til sín, og hlaupa þeir við það fram allir saman. Litlu síðar heyrir hún umgang frammi og kemur inn fólk og fer að öllu sem hina fyrri jólanótt, og þarf ei þar um að orðlengja, og hagar í dagan heimferð sinni sem áður. En þegar hin aldna konan seinast gengur ofan pallstigann segir hún við Ásu: „Eitthvað þarf ég að minnast þín fyrir meðferð þína á drengjunum mínum.“ Síðan tekur hún í fót Ásu og kippir kerlingu með sér ofan af pallinum so óþyrmiliga að sundur gengur annar lærleggur kerlingar og skilja þær að því og má Ása sig ei þaðan hræra og liggur hún þar í lamasessi er fólk kemur heim um morguninn. Geirlaug sýndi nú móður sinni alla nákvæmni og stimamjúka aðhjúkun so kerling tók nú að skammast sín og iðrast þess hve vond hún henni verið hefði og varð henni þaðan af sem notalig móðir, en æ var hún hölt og skökk síðan.

Þenna vetur kom ungur og vænligur maður þar úr sveit og bað Geirlaugar og var því vel svarað og vildi Ása ei annað en að hann færi þangað að vori og þau Geirlaug tæki við jörðu og búi, og var það staðráðið og giftust [þau] Geirlaug um sumarið og tóku við jörðu og búi og önnuðust foreldra Geirlaugar, og var kerling hjá henni til dauðadags og var þá hver annari ástúðlig. Samfarir þeirra Geirlaugar og bónda hennar urðu hinar beztu; áttu þau börn og burur, grófu rætur og murur etc., og þótti Geirlaug jafnan einhver mesta auðnu- og ágætiskona sem álfkonan um mælt hafði, og lýkur so þessi sögu.