Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gersemarnar í Hvammi
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Gersemarnar í Hvammi
Gersemarnar í Hvammi
Vinnukona í Hvammi í Eyjafirði kom eitt sinn frá smalamennsku ofan úr fjalli, en þegar hún kemur ofan á Nónklöpp er svo heitir skammt fyrir ofan bæinn verður henni litið ofan fyrir fætur sínar. Sér hún þá stóra breiðu af allra handa glóandi gylltum gersemum; beygir hún sig niður og ætlar að tína eitthvað upp af þessu, en í því heyrist henni hastarlega vera kallað til sín heiman frá bænum svo hún leit upp. Hafði hún samt tekið upp tvo hnappa sem þóktu mjög fáséðir og lengi síðan hafa verið geymdir. En kallið sem henni heyrðist var ekkert og þegar hún leit niður aftur í því skyni að tína upp meira af þessum gersemum var þá allt horfið; svo hún sá ekki framar neitt af því.