Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gráa kýrin í Yxney

Í Yxney, næstu ey hér við, bjó forðum bóndi einn. Hann leit út í fjós sitt vetrarkvöld eitt; þegar hann kom þar inn var flórinn fullur af ókunnum kúm. Ekki er þess getið hvört þær hafi komið að luktum dyrum. Hann vildi handsama þær, en gat ekki því þær stukku allar út nema hann hrammsaði í eina og beit hana til blóðs; varð hún þá kjur, grá að lit, og lifði mörg ár og reyndist bezti gripur, og er út af henni sprottið það steingráa kúakyn sem lengi hefir í Yxney verið og dreift er nú víða um eyjarnar. Hinar kýrnar elti bóndinn yfir um þvera eyna til sjóar hvar þær steyptust ofan háa brekku er nú heitir Baulubrekka og hlupu í sjóinn þar sem kallast Slamburfall. Nóttina eftir kom að bónda maður í svefni og kvað hann hafa illa gjört að taka þá eina kúna hann hefði átt, en sleppa öllum kúnum sambýlismanns síns sem ætti átta, enda skyldi það launast á sauðfé. Kom þá upp bráðasótt sauðfjárins sem til skamms tíma var bráðust og mest í Yxney, en nú er orðin útdreifð um allt land.