Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Grímsborg
Grímsborg
Norðanvert við túnið í Ketu á Skaga stendur klettaborg ein há og þverhnípt; hún er kölluð Grímsborg. Þar á jafnan að hafa búið huldufólk í borginni og hver verið nefndur Grímur er þar réð fyrir. Var það sögn gamalla manna á Skaga, þeirra er nú eru fyrir skömmu andaðir, að í þeirra tíð byggi fjórir huldumenn í borginni, tveir karlar og tvær konur, og gengi jafnan tvennt senn heim að Ketu og hlýddi tíðum þá er þar væri messað, en tvennt sæti heima.
Einn tíma er sagt að væri harðindi mikil á Skaga svo að lægi við mannfelli af hungri. Þá var það einn dag um vorið sem oftar að leið bóndans í Ketu lá fram hjá borginni; varð honum þá ljóð af munni og kvað:
- „Láttu reka reyður
- ríkur ef þú getur
- brátt undir björgin ytri
- Borgar-Grímur, á morgin.“
Þá var svarað úr borginni og kveðið:
- „Reki reyður að landi
- rétt að Ketusandi,
- heljar bundin bandi
- til bjargar lýð þurfandi.“
En um morguninn eftir var rekinn reyðarhvalur mikill undir Ketubjörgum og varð þar mörgum manni gagn að.
Önnur Grímsborg er innar á fjallinu vestan megin Laxárdals; það er í landi þeirrar jarðar er Hafragil heitir. Í þeirri borg hefur verið hrísrif gott. En sú trú hefur legið þar á að eigi mætti rífa í borginni fyrir því að þá ætti sá að verða fyrir einhverjum skaða er rífa léti; gripatjóni, eldsvoða eður öðru þess konar.