Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Grýla og bændur hennar

Grýla hét norn ein gömul; hún var tvígift. Fyrri maður hennar hét Boli. Þau bjuggu undir Arinhellu. Áttu þau mörg börn saman sem segir víða í Grýlukvæðum. Þau voru bæði mannætur hinar mestu, en þókti þó hnossgæti mest að borða allt ungviði sem skáldið kvað:

Grýla og Boli bæði hjón
börn er sagt þau finni
þau er hafa svæsinn són
til sorgar mömmu sinni.

Og:

Boli, [boli] bangar á dyr,
ber hann fram með stöngum;
bíta vill hann börnin þau
sem belja fram í göngum.

Ætíð þókti meira koma til Grýlu en Bola. Andaðist hann fjörgamall úr ellilasleika eftir það hann hafði lengi legið í kör.

Eftir dauða Bola giftist hún aftur og eignaðist gamlan mann er hét Leppalúði. Þau áttu saman tuttugu börn, en ekki fleiri, því hún stóð á fimmtugu þegar hún átti tvíburana Sighvat og Surtlu sem bæði dóu í vöggu.

Grýla lifði báða bændur sína og varð að amla fyrir þeim lengi karlægum, enda er sagt henni væri óleitt að betla.