Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Graðungurinn í Rúgeyjum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Graðungurinn í Rúgeyjum

Í Rúgeyjum hér á Skarðsströnd mátti aldrei graðung hafa, þeir voru altíð drepnir; ei þurfti heldur að sækja naut til kúnna á vetrum, þær fengu við huldunauti þar á eynni. Þetta gekk lengi fram eftir um marga mannsaldra þar til að einn bóndi kom þangað er Sigurður hét; hann keypti graðung af landi til kúnna sinna hvör eð strax var drepinn þá hann var þangað kominn. Þetta lét hann ganga í tuttugu ár; en allir voru drepnir nema sá tuttugasti, hann lifði, og síðan hefur þar graðungur verið. Aldrei mátti tún slá í þeim eyjum, það er og lítið tún og sýnist að huldufólk þar hafi viljað kosta graðunginn fyrir þá bændur er þar byggðu til léttirs í staðinn fyrir grasið af túninu.

Þessi Sigurður var einþykkur og þrár og vildi ei undan láta fyrirtekt sinni, en það var þó stór léttir að þurfa ei að annast graðung eður hann að fóðra.