Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Grjótgarðsháls

Fyrir löngu og löngu síðan, máske áður en Ísland byggðist, lifðu tvær tröllskessur á Austurlandi; bjó önnur þeirra við sjó, en önnur til jökla. Eitt sinn hittust þær. Kom þá upp þráttan á milli þeirra út af landi og vildu báðar eigna sér allt á miðja leið. En nú var að finna miðjuna. Gjörðu þær því með sér að skilnaði að báðar skyldu byrja um sama leyti dags, önnur við sjó, en önnur við jökul, göngu sína og stika stórum og þar sem þær mættust skyldu þær gjöra eitthvört auðkenni. Fundust þær þá á hálsi nokkrum suðaustarlega í Möðrudalslandi og sem síðan nefnist Grjótgarðsháls, og hlóðu þar grjótgarð mikinn sem mikið stendur af enn í dag og er mikið furðuverk ef mannaverk skyldu vera.

Garður þessi er um að vera míluvegur og er nú mikið farinn að sandkastast, en þó enn fjögurra til fimm faðma hár og björgin svo stór að þau eru víða tveir og á þriðja faðm ummáls.