Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gullbrá og Skeggi í Hvammi
Gullbrá og Skeggi í Hvammi
Hvammur í Dölum, hið forna höfuðból þeirra Sturlunga, stendur í dal einum ekki mjög breiðum. Á rennur eftir dalnum og stendur bær einn hinumegin móti Hvammi, sá bær heitir Akur, og eru ekki fleiri bæir í dalnum. Akur hefur snemma byggður verið þó hann líti út fyrir að vera afbýli úr Hvammslandi því það er þegar í Sturlungu getið um Akur þar sem Sturla segir draum sinn að honum þótti sem hann væri í hlíðinni „upp frá Akri“. Annars staðar hef ég eigi fundið bæinn nefndan í sögum. Við Gullbrá er átti fyrst að hafa búið á Akri eru kennd ýms örnefni þar í dalnum og gengur um hana þessi frásaga vestra þar:
Auður hin djúpauðga nam land allt með Hvammsfirði og bjó í Hvammi. Hafði hún rausn mikla og mikið um sig. Gekk búsmali austanvert árinnar, en akrar voru í dalnum upp undir hlíðina að vestanverðu. Voru akrar þessir mjög frjóvir, en þó var sá háttur á jafnan að það svæði sem leit út til að vera jafn-frjósamast lét Auður jafnan liggja ósáð og lagði hart bann fyrir húskarla sína að þeir skyldu aldrei rækta allan suðurhluta akursins og ekki skyldu þeir láta búsmala staðnæmast þar á beit og ef svo færi nokkru sinni skyldi eigi nytka þann pening næsta mál.
Það var einhverju sinni er Auður djúpauðga var orðin gömul mjög að kona nokkur kom að Hvammi ung og mjög fríð sýnum; hún kvaðst heita Gullbrá; enginn vissi hvaðan hún kom eða hverrar ættar hún var. Hitti hún verkstjóra, en eigi húsfreyju sjálfa. Spurði hún hann því eigi væri ræktaðir akrarnir þar fyrir sunnan ána og sagði hann henni ummæli Auðar. Hló hún mjög og lagði fölun á landið; „vil ég heldur eina þúfu af því en allt Hvammsland því mér segir svo hugur um að hér muni sá siður tíðkast og það hús byggja[st] sem mér er verst við og gef mér þegar heimild fyrir landinu að Auði fornspurðri,“ segir hún. Réttir hún honum sjóð einn mikinn fullan af gulli og með því honum bæði þótti gullið fagurt og Auður var þegar hætt búsforræði þá hann gullið og gaf heimildina.
Auður komst fljótt að þessu; rak hún þá burt verkstjóra sinn og kvað hann aldrei mundi af gulli því þrífast því sér segði svo hugur um að Gullbrá þessi væri fjölkunnug mjög og hinn versti gestur og nú væri fram komið það er sig hefði grunað um landið sunnan árinnar, „en sú gifta mun Hvammslandi fylgja,“ segir hún, „að eigi mun saka.“ Verkstjóri þreif þá til sjóðsins og vildi gefa Auði til að blíðka hana. Leysti hann til og vall þá út hrúga mikil af ormum með ódaun miklum, en maðurinn ærðist og dó að litlum tíma liðnum. Var hann og sjóðurinn dysjaður á fjalli uppi í landi því er Gullbrá hafði keypt og heitir þar síðan Ormalág. Ekki brá Auður kaupunum, en alla akra lét hún af leggja sunnan árinnar allt frá sjó og að gljúfragili nokkru innar í dalnum; þar lét hún setja krossa þrjá á fjallsbrúnina og heitir það síðan Krossgil og kvað hún fjölkynngi Gullbrár eigi myndi yfir komast krossa þessa að sér lifandi. Gullbrá lét heldur aldrei við þeim hreyfa og varaðist að láta pening sinn nærri þeim koma. Reisti Gullbrá bæ mikinn á landi sínu og bjó þar lengi; kallaði hún það að Akri er síðan nefndist Hofakur. Byggði hún þar hof og hafði blót mikil og efldi seiða stóra. En jafnan var það er hún framdi fjölkynngi sína og henni varð að líta til Hvamms þá ruglaðist seiðurinn; kvaðst hún ávallt sjá ljós mikið á einum stað í Hvammstúni og væri sér óþolandi birta þess enda gleymdi hún þá og ruglaðist í fræðum sínum. Álíka ljós lagði móti henni af krossum Auðar á fjallsbrúninni; þó kvað hún þá ei verða mundi sér eins meinlega og ljósið í Hvammstúni.
Aldrei fundust þær Auður og Gullbrá né heldur leyfðu hjúum sínum að finnast yfir ána og aldrei kom saman peningur þeirra. Auður var kristin, en hafði eigi kirkju á bæ sínum. Hélt hún bænir sínar á Krosshólum því þaðan sást eigi til hofsins á Akri. Áður Auður andaðist mælti hún svo fyrir að hún eigi vildi liggja í óvígðri moldu, en kvaðst óttast yfirgang heiðninnar og bað því að grafa sig í flæðarmáli. Heitir þar nú Auðarsteinn er hún liggur og er það enn í dag almennt fjörumark á Hvammsfirði að þá er um stórstraum rétt hálffallinn sjór út eða að þegar fyrst brýtur á Auðarsteini.
Gullbrá bjó skamma stund á Akri eftir andlát Auðar því þó vald hennar efldist er heiðni var almenn og Hvammverjar fóru að hafa heiðinn átrúnað og hörga á Krosshólum þá festi hún ekki yndi þar sem legstaður Auðar var fram af landi hennar í flæðarmáli, en krossar hennar innar við gilið á hlíðarbrúninni. Var hún þar í nokkurs konar úlfakreppu. Fékk hún þá Hvammvejum landið á Akri, en tók í móti hinn innri hluta dalsins. Þar er skuggalegt mjög og lágur sólargangur á sumrum, en mestan hluta vetrar sér þar ekki sól í suðurhlíð dalsins. Valdi hún sér aðsetur innst í dalnum, þar sem hann er mjóstur og skuggalegastur, heitir það síðan Gullbrárhjalli.
Ekki treystist Gullbrá að fara inn eftir dalnum fram hjá krossum Auðar nema efla sig með fjölkynngi sinni. Gekk hún til hofs síns og dvaldi þar lengi með mörgum kynlegum látum og er hún fór út lét hún binda fyrir augu sér, tók síðan með sér úr hofinu kistu eina fulla af gulli, og hring einn mikinn er var í hofhurðinni lét hún festa í kistulokið, settist síðan á hest, reiddi kistuna fyrir framan sig og hélt í hringinn, en húskarlar teymdu undir henni. Skipaði hún þeim að líta aldrei upp í hlíðina til krossanna. En í því að sá er teymdi hest hennar yfir Krossgil varð honum á að líta upp til hlíðarinnar og hikaði hann nokkuð, en með því gilið var illt yfirferðar, en Gullbrá hvatti sem mest sporið, hrasaði hestur hennar á kné. Við það hraut kistan fram af, en Gullbrá sat og hélt einungis eftir hringnum. Varð henni svo hverft við þetta að hún þreif skýluna frá augum sér að sjá hvað um kistuna hefði orðið, en í sömu svipan blöstu við henni krossarnir á hlíðarbrúninni. Æpti hún þá hástöfum, sagði að óþolandi birtu legði í augu sér, bað menn fá sér kistu sína og ríða áfram sem hraðast. En hringnum er hún hélt eftir henti hún sem lengst frá sér og sagði sig lengi mundi iðra eftir að hafa haft hann meðferðis – „enda sé ég nú eftir,“ segir hún, „að hringur sá er til einhvers þess ætlaður er mínu skapi er einna móthverfast“.
Gullbrá hélt nú leiðar sinnar. En er hún var komin skammt frá gilinu tók hún augnverk mikinn og það svo að þegar hún kom á Gullbrárhjalla hafði hún misst sjónina. Dvaldi hún þar um hríð blind við óhægð mikla þar til hún tók sótt þunga. Kallaði hún þá húskarla sína til sín og skipaði þeim að flytja sig að gljúfri nokkru og renna sér þar niður. Kvaðst hún liggja vilja þar er aldrei sæi sól og aldrei heyrðist klukknahljóð. En svo er háttað gljúfrinu að það er foss í gili nokkru móti norðri og hellir inn undir. Gljúfrið er afar djúpt og svo iðan undir fossinum. Gullbrá gekk í hellirinn og lagðist á gullið. Þegar hún var orðin afturganga í fossinum eyddi hún bæ á Gullbrárhjalla; héldust þar á hjallanum eða í hlíðinni hverki menn né skepnur lifandi er rökkva tók og hefur sauðamönnum jafnan þótt þar reimt síðan, en öll afturganga fór þar af eftir að kirkja var reist í Hvammi. Þar heitir nú Gullbrárgil og Gullbrárfoss er Gullbrá lét færa sig í.
Hringurinn úr hofhurðinni á Akri er enn við líði. Hann er nú í kirkjuhurðinni í Hvammi. Er það mikill hringur, mjög máð handfangið, og er hann úr koparblending (bronze); er koparplata mjög gömul undir kengnum; þar á er upphleypt mynd tveggja manna herklæddra með hjálm á höfði og sverð á hlið í stuttum panzara. Leggur annar lagvopni í brjóst hinum svo út kemur um bakið.
Þess er getið í Kristnisögu og víðar að þá er Þangbrandur prestur fór um Vestfirði þá kom hann að Hvammi; var máli hans þar illa tekið; húsfreyja kom eigi út og var inni að blóti; en Skeggi son hennar gjörði gabb að þeim Þangbrandi á meðan.
Það er sagt að Skeggi þessi hafi búið lengi í Hvammi og eflt mjög heiðinn átrúnað; var hann fjölkunnugur sjálfur og ramheiðinn eins og móðir hans. Þó hafði hann eigi fjölkynngi svo mikla að hann gæti haft við afturgöngu Gullbrár. Drap hún oft fyrir honum smalamenn og fé er það kom á Gullbrárhjalla. Féll Skeggja þetta illa því heldur sem honum lék jafnan hugur á að ná kistu Gullbrár úr fossinum. Sagði hann eins og satt var hún væri betur geymd hjá sér en hjá henni, dauðum draugnum. Lagði hann á stað einn góðan veðurdag og bjó sig út til að ganga í Gullbrárfoss. Löng var leið innar eftir dalnum og var farið að skyggja er hann kom að fossinum. Húskarlar tveir voru með og skyldu þeir festum halda. Seig Skeggi í fossinn og leið ekki á löngu áður festarmenn heyrðu dynki mikla, skurk og óhljóð; var svo að heyra sem harður aðgangur væri undir fossinum. Urðu þeir þá hræddir mjög og lá við þeir mundu frá hverfa; en í því gjörði Skeggi þeim bending að draga upp festarnar. Þeir gjörðu það, en í því að kista Gullbrár var komin upp á gljúfurbrúnina varð þeim litið við; sýndist þeim þá allur dalurinn allt neðan frá Hvammi vera í einu báli; lagði logann milli beggja fjallanna. Urðu þeir þá svo hræddir, að þeir stukku frá festunum og kistan hlunkaði niður aftur í fossinn. Þegar þeir voru komnir niður af hjallanum sáu þeir engin venjubrigði, en staðnæmdust þó ei fyrri en heima. Skeggi kom löngu síðar þjakaður mjög; var hann blár og blóðugur. Ketil mikinn bar hann á handlegg sér fullan af gulli; hafði hann fyllt hann úr kistu Gullbrár og lesið sig svo á handvaði up úr gljúfrinu. Hafði aðgangur þeirra Gullbrár og Skeggja orðið harður og langur, og ekki hafði Skeggi getað eytt afturgöngu Gullbrár því aldrei varð Gullbrá verri en eftir þetta; drap hún hvern smalamann af öðrum fyrir Skeggja og fór svo að lokum að enginn fékkst til fjárgæzlu því þeir voru allir drepnir.
Af Skeggja er það að segja að hann varð aldrei samur eftir að hann gekk í fossinn; fékk honum það svo mikils og smalamannadrápið að hann lagðist í rekkju. En þegar svo var komið að enginn fékkst til fjárgæzlu reis Skeggi úr rekkju einn dag og gekk til kinda sinna. Leið svo dagurinn og nóttin með að Skeggi kom eigi heim, en seint næsta dag kom hann heim nær dauða en lífi því enginn þorði að vitja hans. Bar hann þá kistu Gullbrár á bakinu. Sagði hann að eigi mundi mein verða framar að afturgöngu hennar, en sjálfur mundi hann líka á eftir fara. Lagðist hann þá aftur og stóð ekki upp framar. Mælti hann svo fyrir áður en hann lézt að gulli því sem í katlinum var skyldi verja til að kaupa fyrir kirkjuvið svo kirkja yrði reist í Hvammi. Sagðist hann í fyrra sinn er hann gekk í fossinn og tókst á við Gullbrá hafa heitið á Þór vin sinn, en hann hafi brugðizt sér, en í seinna sinn hafi hann, ennþá nauðuglegar á vegi staddur, unnið það heit að leggja fé til kirkjubyggingar í Hvammi ef hann frelsaðist úr klóm Gullbrár; við það kom ljós mikið í glyrnur hennar svo hann vissi eigi [fyrr] en hún var orðin að steini þar niður í gljúfrinu og sést draugurinn enn í dag í Gullbrárfossi. Ekki vildi Skeggi að heldur taka trú eða láta grafa sig að kirkju í Hvammi, heldur sagði hann svo fyrir að hann yrði heygður þar norður í túninu. Var það gjört og kista Gullbrár látin undir höfuð honum. Er þar nú steinn einn mikill og heitir hann Skeggjasteinn. Dalurinn sem þar blasir við heitir Skeggjadalur og er Gullbrárhjalli sunnan megin í þeim dal.