Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hákarlamenn frá Djúpavogi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Hákarlamenn frá Djúpavogi

Einu sinni lagði skip austrúr Djúpavogi til hákalla. Skömmu síðar kemur það aftur og hafði aflað vel og fer það so aftur til sömu ferðar og þegar það er komið langt frá landi kemur á það þoka og hafvillur og vita mennirnir er á því eru ekkert hvað þeir fara. Eftir langan tíma léttir upp þokunni og sjá þeir langt frá sér til eins fjalls og hlakka yfir að þeir geti lent þar við land því ekki sé annars staðar skemmra til lands; halda so skipinu þangað, en þar var ekki alls kostar gott að lenda fyrir skerjum og eftir því var brimið. Eru þeir so þarna nokkurn tíma að hrekjast innan um skerin. Lendir skipið þá á einu þeirra og brotnar í spón og allir mennirnir drukkna nema tveir, þeir reka upp á landið á einum flaka og lítið eitt af góðsi er þeir höfðu meðferðis. Þeir flytja það upp á landið.

Þeir ganga so upp á landið og sjá þar fjall og grasivaxnar hlíðar á aðra hlið, en sjórinn á aðra, og fara þeir að kanna landið. Þegar kvöld er komið koma þeir að einum mjög stórum hól. Þeir ganga upp á hann og eru þá að segja að þeir hafi aldrei séð eins stóran hól og fara að stappa niðrí hann og segja að hann muni vera holur því það dunki so undir. Þeir ganga ofan af hönum og í kringum hann þangað til þeir koma að ofurlitlum dyrum og var hvalbein haft í dyrunum eins og slagbrandur. Þeir taka það úr og skríða inn um dyrnar aflangir því svo voru þær lágar. Þegar þeir komu þar inn sjá þeir þar ljós loga í kolu og stóð þar stór maður við með tein í hendinni. Líka sáu þeir þar hval er hann var að skera í stykki og tók so einn og einn bita og lét á teininn og steikti síðan á koluljósinu. Þeir heilsa hönum upp á tvenns slags tungumál. Hann sagði eitthvað á móti þeim er þeir ekki gátu skilið. Líka rétti hann þeim á teininum bita, en þeir vildu hvorugir þiggja. Þeir sjá í öðrum endanum stóra hvalhrúgu, en í hinum sjá þeir eitt flet fyrir gaflaðinu og dýrafeldir ofan á. Þeir fletta hönum upp og sjá þar mjög ljóta og stóra kellingu enn til; það fer þá að ýlgra í henni. Í hinum armi sjá þeir kvenmann er þeim virtist vera dóttir karls og kerlingar. Hún var lítið laglegri en kelling. Hafði hún mikið hár og batt hún það upp í hvirfil með rauðu silkibandi. Þeir hugsa með sér að vera þarna til morguns. Þegar karlinn er búinn að steikja sex stykki lætur hann þau í skíðisöskju, fer hann so með öskjuna og koluljósið til kellingar og setast þær so upp og fara þau öll að éta. Éta þau sín tvö stykkin hvurt. So tekur kallinn tvo dýrafeldi stóra og leggur annan á gólfið, bendir þeim síðan að leggjast þar, en hinn lætur hann ofan á þá. Fer so kall að hátta. Sefur so allt af um nóttina.

Um morguninn fer kallinn að steikja hval eins og kvöldið áður, en þá fóru þeir að borða lítið eitt af brauði er þeir höfðu meðferðis og vín og gáfu þeir karli, kerlingu og stelpu bita af því og eins af víni. Þau tóku í höndurnar á þeim brosandi. Þeir fóru so þaðan og gengu langan tíma að vita hvort þeir fyndu öngvan bæ. Þegar þeir eru búnir að ganga lengi sjá þeir húsabæ. Þeir koma þangað, hitta þar við eitt tvo menn er voru að saga hvalbein. Þeir spurja hvað margt manna sé hér. Þeir segja að hér séu hjón er eigi eina dóttur, og ein vinnukona og þeir báðir. Þeir spurja hvort óhætt muni vera að finna húsbóndann. Þeir segja það vera, en það sé samt nýlenda að sjá nokkurn mann. Benda þeir þeim á eitt hús og segja að hann sé þar inni. Þeir fara síðan þangað. Þeir sjá þar í dyrunum á gangi kjólmann og var hann að reykja. Þeir heilsa hönum; hann tekur því. Þeir sjá þar tvær vatnsfötur fyrir utan dyrnar. Þeir biðja hann að lofa sér að drekka úr þeim. Hann lofar þeim það. Þeir drekka so úr fötunum og þykir það mjög gott vatn. Kjólmaður spyr hvurs stands menn þeir séu. Þeir segja þeir séu skipbrotsmenn. Hann býður þeim inn; þeir þiggja það. Fer hann með þá inn í eitt lítið og laglegt hús, fer síðan frá þeim og leggur aftur húsið eftir sér. Þegar þeir eru búnir að sita þar nokkra stund kemur kvenmaður inn með leirskál í hendinni fulla með graut og segir að þeir eigi að borða þetta. Þegar stundarkorn er liðið kemur hún aftur að sækja skálina. Þeir biðja hana að skila til þess sem hafi boðið sér inn um daginn að lofa sér að vera. Hún lofar því. Líður so tímakorn þar til kjólmaðurinn kemur aftur og fer að skrafa við þá hvurnig þeir hafi komizt hingað. Segja þeir hönum þá upp alla söguna. Hann segist skuli segja þeim á morgun hvurnig hann hafi komizt hingað að. Þeir eru so þar um nóttina.

Um morguninn þegar þeir eru komnir á fætur fara þeir út og sjá mennina sem voru að saga hvalbeinin. Þá kemur kjólmaðurinn út og kallar á þá inn í annað hús. Þegar þeir koma þar inn sjá þeir þar konu sitja við borð að sauma í dönskum búningi og stúlkubarn hjá henni. Hann segist nú ætla að segja þeim hvurnin hann hafi komizt hingað, hann sé einn skipbrotsmaður líka og hans fólk allt og það sé fyrst af sér að segja að hann hafi atlað [að] sigla með öðrum fleirum sjóveg yfir einn fjörð því það hefði verið fljótara en að fara landveg. Þegar allt var komið út í skip og haldið nokkuð frá landi þá hafi bráðhvesst og hafi því skipið hrakið langt frá landi. Þegar þeir voru komnir langt út á sjó þá hittu þeir þar danskt skip sem bauðst til að taka þá. Þeir þáðu það ekki því þeim leizt illa á þá, með því líka þeir hugsuðu að þeir mundu ná landi þangað sem þeir ötluðu sér að fara. Halda so hvorir sína leið, en þegar þeir eru komnir langt hvor frá öðrum þá datt yfir þá so myrk þoka að þeir vissu ekkert hvað þeir fóru og vissu ekki fyr til en þeir ráku að þessari eyju og brutu skipið í spón. Hraktist nokkuð af mönnum og skepnum og góssi í land, og tveir synir sínir og tvær dætur sínar hafi drukknað og margir aðrir, en hræddir voru þeir um að þessir sem þeir hittu á sjónum hafi viljað fá þá, en ekki þorað það, hafi þeir því sagt að þeir mundi komast að þeirra landi seint eða aldrei. Hann væri búinn að vera hér í átta ár og enginn maður hefði komið hér að eyjunni. Þeir biðja hann þá að taka sig; hann gerir það. Þeir biðja hann að hafa einhvur ráð að hjálpa til að ná gósinu þeirra sem þeir höfðu náð. Hann segist ekki hafa önnur ráð en ljá þeim tvo hesta og vinnumennina sína. Þeir fara so eftir því smátt og smátt þar til búið er að flytja allt heim. Vóru þeir þar so nokkur ár að aldrei sást til neinnra skipa.

Einu sinni þegar vinnumennirnir fóru að sækja vatn sjá þeir hvar skip kemur nærri landi og róa tveir menn á slúffu til lands. Vinnumennirnir bíða þeirra og þekkja þeir þá; þeir voru að sækja sér vatn á skipið. Fer annar þeirra heim að segja tíðindin, en hinn fer út í skip og biður skipherrann að taka fólkið þar á eyjunni. Hann lofar því. Annar vinnumaður hans og vinnukona vildu vera og beiddu hann að gefa sig saman því hann var prestur. Hann gerir það, gefur þeim síðan allt á eyjunni og eins hinir sem seinna strönduðu. Það fer so allt á skip og siglir prestur þangað er hann fyr átti heima, og tóku allir vel á móti hönum og þóttust allir hann úr helju heimtan hafa. Annar maðurinn er seinna strandaði á eyjunni fekk dóttur prestsins, settist að búi í einum kaupstað því hann hafði áður verið kaupmaður, en hinn varð hjá hönum vinnumaður. Lifðu þeir so vel og lengi og áttu mörg börn. – Endar so þessi saga.