Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hegnt fyrir forvitni
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Hegnt fyrir forvitni
Hegnt fyrir forvitni
Það var venja bónda eins í Hreppum fyrir sunnan að sópa og tjalda hesthús sitt hvern aðfangadag jóla og vildi hann eigi segja hvers vegna hann gjörði slíkt. Heimamönnum bannaði hann að grafast eftir því eða forvitnast til hestshússins. Vinnumaður bónda var einu sinni svo forvitinn að [hann] fór í hesthúsið einn aðfangadag og lagðist niður í stallinum. Þegar leið fram á nótt kom fólk inn í húsið; það kveikti ljós og setti borð niður, hóf síðan dans og drykkju sem stóð fram undir dögun. Hvarf það þá á burt, en sá sem síðast fór út gekk að stallinum og lét pening í lófann á manninum og hvarf síðan frá honum. En peningurinn gekk í gegnum hendina á vinnumanninum svo hann varð handlami upp frá því.