Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hjúin á Aðalbóli

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hjúin á Aðalbóli

Nálægt Jökuldal í Norður-Múlasýslu liggur eyðidalur er nefnist Hrafnkelsdalur; vóru til forna í honum tveir bæir, hét annar Aðalból. Þar bjó bóndi sem hélt vinnumann og vinnukonu er hétu Gunnlaugur og Sólveig; vóru þau trúlofuð sín á milli. Gunnlaugur gætti fjár á vetrum. Var þar beitarhús og langt til frá bænum; var hann þar oft nótt í skammdeginu þegar hann varð seint fyrir og átti þar jafnan nesti. Það var einu sinni að hann var nótt í húsinu sem oftar, og áður hann legði sig til svefns fékk hann sér bita af nestinu. Varð hann var um að í það hafði verið kroppað líkt og mýs hefðu verið. Furðar hann á þessu og er hann kemur heim getur hann um þetta. En um nóttina dreymir hann til sín koma bláklædda konu stóra og illilega er svo mælti: „Illa gjörðir þú að segja eftir börnum mínum þó þau kroppuðu í nesti þitt, munaði þig það engu og skaltu þess gjalda.“ Gunnlaugur sagði drauminn um morguninn. Er hann heima nokkrar nætur.

Einn dag að áliðnu gjörði veður dimmt. Gekk þá Gunnlaugur til beitarhúss; gjörði föl um kvöldið svo rekja mátti spor. Um nóttina dreymdi Sólveigu að Gunnlaugur kom til hennar og var allur marinn og blóðugur. Hann mælti: „Svona er búið að fara með mig, en þó þótti mér verra að sjá hvurnin farið var með hana Gullkollu þína“ (Sólveig átti á er var nefnd Gullkolla). Henni varð bilt við og vaknaði. Sýndist henni hún sjá eftir manninum ganga frá rúminu. Þetta þykir henni kynlegt og sagði hún drauminn um morguninn. Enginn meinti þetta annað en markleysu eina. Leið svo dagurinn að ekki kom Gunnlaugur heim; fór mönnum að lengja. Daginn eftir var gerð leit, komu menn að húsinu og fundu féð inni og sáu spor eftir manninn fram dalinn; gengu þeir fram með ánni og fundu Gullkollu alla sundur marða og var ekki eitt bein heilt í henni, en spor Gunnlaugs röktu þeir fram undir björg er vóru beggja megin árinnar. Lá hann þar allur sundur marinn og blóðugur; var ekkert lífsmark með honum. Var nú líkið flutt til bæjar, grafið síðan að kirkju. En Sólveig undi ei lengur á Aðalbóli, fékk hún fararleyfi og fluttist að Hafrafellstungu í Axarfirði, giftist þar síðar og átti ungan mann er Sigvaldi hét. Þau áttu fimm börn er svo hétu: Gunnlaugur, Guðmundur, Eiríkur, Sólveig og Þorbjörg; hafa þau uppi verið undir þennan tíma.