Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk í kirkjuferð

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Huldufólk í kirkjuferð

Það er sagt í Lundarbrekkulandi séu sjö huldufólkskot. Það hefur stundum orðið vart við að það hefur komið til kirkju að Lundarbrekku, hvar upp á eitt dæmi skal hér sagt:

Einhvern messudag á Lundarbrekku var margt fólk komið til kirkju og var margt inn í baðstofu fyrir messu og beið þess byrjuð yrði messa. Þar á meðal var kvenmaður roskinn sem sat á fremur afskekktum stað í baðstofunni og hallaði sér upp við dogg og var sem sigi að henni svefnmók, þó svo að hún vissi varla hvert hún vakti eða svaf. Þá þykir henni sem ókunnugt fólk komi inn, flest kvenfólk skrautbúið og allt á íslenzkum búningi með fald og skautað hið fegursta, hvað allt saman það lagfærði lipurlega svo sem áður en það færi út í kirkjuna og ein þeirra lagði hjá henni klút næsta afbragðs fallegan meðan hún var að laga á sér klæðin. Hún þykist spyrja hvaðan þessar stúlkur séu. Þær segjast vera hérna úr nágrenninu og segjast lengi ekki hafa komið til kirkju og farið nú því til kirkju, – „og ætlum við,“ segja þær, „að vera hér við messu í dag“. Þar eftir vaknaði hún og sagði skyn á um drauminn. Það er varla tuttugu ár síðan þetta skeði.