Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólkið í Nesjum
Huldufólkið í Nesjum
Fyrir löngu síðan bjó bóndi einn í Nesjum í Skaftafellssýslu er Jón hét og átti konu þá er Vigdís hét. Eina dóttur áttu þau barna er Guðrún nefndist.
Það bar við eina jólanótt þegar bóndadóttir var vaxin nokkuð að allt heimilisfólkið fór til kirkju eins og þá var siður, að hjónin láta dóttir sína eina eftir heima að gæta bæjarins. Þegar fólk er allt farið fer Guðrún og sópar og hreinsar allan bæinn hátt og lágt og kveikir svo ljós í hverju horni svo hvergi ber skugga á í öllum bænum. Að því búnu fer hún upp í rúm sitt sem var inn í hjónahúsinu og dregur rúmtjaldið fyrir framan og fer að lesa í bók. Þegar hún hafði setið svona tímakorn heyrir hún að gengið er um niðri og í því koma tveir menn henni ókenndir upp á pallinn, litast um í baðstofunni, en gefa henni öngan gaum, þar til þeir ganga ofan. En á vörmu spori koma þeir aftur með borð og bekki ásamt fjölda fólks sem inn kom með það líka og var það sett yfir alla baðstofuna og þar á borið vín og vistir. Meðal annars var lítið borð sett inn í húsinu og þar settir við tveir stólar er auðir stóðu þegar fólkið var allt setzt niður við borðin, og tók enginn til matar. Þá sér hún hvar roskinn maður höfðinglegur og vel búinn kemur inn og leiðir ungan pilt fríðan og fallegan við hönd sér. Setjast þeir í auðu stólana og með það taka allir til matar. Þegar það hafði etið og drukkið eftir vild sinni tekur það til að spila og syngja og hafa alslags hófláta skemmtan. Að þessu er það lengi fram eftir nóttinni án þess að gefa Guðrúnu gaum, þar til það fer að smátínast í burt og seinast sitja þeir tveir eftir er síðastir komu inn unz sá eldri segir að nú sé þeim mál, sonur sinn, þegar að fara því nú sé skammt til dags; og fara þeir þá.
Um morguninn kemur fólkið heim og ber nú ekki framar til tíðinda fyrr en líður að næstu jólum. Spyr þá Vigdís dóttur sína hvört hún hefði einskis orðið vör í fyrra um jólin, en hún neitar því. Bað hún hana að vera ennþá heima fyrir sig um jólin og lofar Guðrún því. Er því ekki að orðlengja það að allt fór á sömu leið og hið fyrra skiptið nema þegar þeir feðgarnir standa upp leggur sá yngri silfurbúið mittisband á koddann hjá henni og meðan þeir ganga fram pallinn gefa þeir henni auga hvört hún taki bandið. En þegar þeir eru farnir tekur hún það fyrsta og fer að skoða og lízt vel á. Ber hún það fram í kistu sína og lætur enn öngan vita hvað gjörzt hefir.
Þegar líður að þriðju jólunum kemur Vigdís enn og spyr dóttur sína hvort hún hefði þá einskis orðið vör um jólin að undanförnu og skyldi hún segja sér satt um það. Sagði Guðrún móður sinni allt það sanna og sýndi henni bandið. Segir Vigdís þá að sig hefði alltént grunað þetta og nú skuli hún enn verða heima um jólin og muni þá eitthvað frekar í gerast enda gildi sig einu þó hún lenti til þessa fólks, því hún þekkti það vel. Varð það því úr að Guðrún varð sem áður heima, en allt fór annað til kirkju. Brúkaði hún alla fyrri háttsemi og þeir sömu komu og áður, en nú var ekki borinn nema annar stóllinn að litla borðinu og settist nú ungi maðurinn á rúmstokkinn hjá Guðrúnu og glaðværðin virtist að vera með meira móti. En þegar allir vóru komnir í burt nema feðgarnir segir sá eldri: „Nú er þér mál, sonur minn, að lúka erindi þínu og gjöra vel fyrir þér ef vel á að fara.“ Og í því fer hann burt, en pilturinn snýr sér þá að Guðrúnu og talar til hennar með því að hefja bónorð sitt við hana og segir henni þá hvör hann sé og hvaða ættar. Var hann sýslumannsson og var þá sjálfur útlærður, en bústaður sinn sagði hann væri skammt þaðan. Dró hann þá upp peningasjóð og forsiglað bréf til móðir Guðrúnar og stakk undir kodda hennar. Eftir það tekur hann í hönd henni og leiðir í burt. En þegar fólkið kom heim fannst bréfið og peningarnir, en stúlkan ekki. Ekki var samt að henni leitað því bréfið skýrði frá hvör hana hefði tekið, enda hafði Vigdís vitað um alla þá ráðagjörð því hún hafði áður haft mök við þetta huldufólk. En eftir þetta var hún allajafna hjá dóttir sinni og sat yfir henni þegar hún ól börn.