Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldumaðurinn og Geirmundur hái

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Huldumaðurinn og Geirmundur hái

En mitt hald þar um að álfar búi ei í hraunum eður brenndu grjóti staðfesti ég með eftirfylgjandi frásögu. Það segir so í sögu Geirmundar háa: „Þá kom ég að miklu hrauni; var ég þá illa staddur þar óvinaflokkur var við hæla mér; fór ég þá í hraunið so fljótt er ég kunni, en þeir eftir. Þá mætti mér maður á gráum stakki; hann sagði til mín: „Illa ertu staddur Geirmundur hái þar óvinir þínir eru að segja að þér komnir, en þú snart sprunginn, og vil ég hjálpa þér ef þú það vilt.“ Ég gat varla orði upp komið fyrir mæði, en sagði þó: „Það vil ég gjarnan þiggja;“ voru þá óvinir mínir að mér komnir með ópi miklu. Brá hann þá yfir mig hendi sinni, tók so í hönd mér og leiddi mig þvert frá þeim. Sagði hann mér þá hægt að fara og kasta mæði, „þar óvinir þínir munu hafa tapað sjón á þér,“ sagði hann. Formerkti ég það og líka að þeir sáu mig ei þar ég heyrði þá segja: „Hvað varð nú af illmenninu, hefur hraunið gleypt hann þar við sjáum hann ekki?“ Sá ég þeir leituðu mín og fundu mig ei; sneru so til baka úr hrauninu. Þá sagði maður þessi við mig: „Nú ertu laus við óvini þína í þetta sinn og mun ég þig yfirgefa.“ Ég þakkaði hönum fyrir hjálpina og spurði hann að heiti og hvar hann ætti heima, en þá sagði hann: „Ég heiti Kári, en ei skiptir þig um hvar ég á heimili.“ Ég sagði þá: „Kann vera þú eigir heima í hrauni þessu;“ því ég meinti stigamaður væri. Hann sagði: „Ei búa ljúflingar í brenndu grjóti, heldur eru þar ill landvætti og dauðra manna verur er grillur gjöra lifandi mönnum.“ Hvarf hann þá frá mér, en ég ráfaði um hraunið þar til ég lagði mig niður að sofa, etc.“

Auðheyrt er það af orðum Kára að hann hefur huldumaður verið og ei í hraunum búið; má og af hans orðum skilja að huldufólk búi ei í hraunum, heldur illar verur manna og landvætta.