Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ingibjörg á Svelgsá og álfkonan

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Ingibjörg á Svelgsá og álfkonan

Það bar til á Svelgsá í Helgafellssveit að eitt kvöld um jólin að þá allir voru inn komnir að kona annars bóndans er þar bjó er Ingibjörg hét sá að kona ókunnug kom upp í lúkugatið og stóð í stiganum, leggjandi hendur sínar upp á loftsfjölina og grúfði nokkuð fram á þær. Ingibjörg kallar upp, spyrjandi hvör hún sé, en hún þagði; og þá hún hafði litla stund þar verið tekur Ingibjörg ask sinn er í voru leifar hennar sem var nokkuð lítið af súpu og þar í tveir spaðbitar, og setur hann fram á fjölina hjá konunni og so sem að henni réttandi. Þessi aðkomukona tók askinn, tekur þar út annan bitann og réttir ofan fyrir sig so sem hún gæfi barni sínu, en hinn bitann át hún og það í askinum var og setti hann so á fjölina aftur þar hann stóð, og fór á burt. Soddan bar til í þrjú kvöld hvört eftir annað; rétti Ingibjörg altíð askinn að henni með spaði í. Ei töluðu þær saman neitt hvörki í vöku né svefni, en seinast þá konan kom skildi hún eftir á loftskörinni so sem hálfskák af klút sem brúkast mátti á herðum, rauðleitt að lit og so til búið að ei þóttist sr. Tómas í Garpsdal eður aðrir er það sáu hafa séð annað eins. Þetta gaf konuskepnan Ingibjörgu fyrir spaðbitana er hún lét henni í té.

Nokkrum tíma þar eftir voru börn Ingibjargar fram í bæjardyrum. Þau sjá hvar þrjú börn eru fyrir framan dyrnar út á hlaðinu og eru að benda þeim út úr dyrunum með gamanlegri handatilbreytni. Fóru þá börnin út; en hin fóru undan með sama handafáti og ginntu börn Ingibjargar einlægt eftir sér so þau voru komin langt frá bænum þá Ingibjörg móðir þeirra sá til ferða þeirra og hún kallaði og hljóp eftir þeim og gat naumast þeim aftur snúið; bar so ei fremur á því.