Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Inntak úr söguþætti af Ásmundi flagðagæfu
Inntak úr söguþætti af Ásmundi flagðagæfu
Í dal einum fjarri þjóðbyggð í Noregi bjó karl og kerling, þau áttu þrjá sonu, hét hinn elzti Grímur, annar Þórir, þriði Ásmundur. Þeir Grímur og Þórir voru vænir og vel að sér, höfðu þeir það starf að gæta sauða karls og kerlingar og draga þarfindi til bús þeirra. Þess getur sá sem hér um hefur kveðið:
- „Karl hefur búið í afdal einn,
- átti sonu þrjá,
- í mörgu var sá maður beinn,
- má vel greina þá.
- Grímur og Þórir gættu að sauð,
- gjörðu karli þjóna
- og svo vakta allan auð
- ásamt beggja hjóna.“
Ásmundur var ólíkur bræðrum sínum, lá hann í eldaskála og lét það ekki til sín koma er nauðsyn var; unni faðir hans honum lítið, en móðir hans mikið.
Þá var Ólafur Haraldsson konungur yfir Noregi; þótti mörgum ungum mönnum, þeim er þrek höfðu og frama vildu sækja, hið mesta sæmdarefni að fara á fund hans og seljast honum til þjónustu; kemur það einnin upp hjá þeim Grími og Þóri að þeir vilja þetta ráða sinna og gjöra bert föður sínum; hann tekur vel á og segir mannskap þeirra að meiri, telur víst að sú ferð muni þeim til sóma og frægðar, býr þá svo heiman eftir efnum og fær þeim allt það þeir þurftu nema reiðskjóta. Fóru þeir síðan af stað gangandi og gengu þrjá daga samfleytt unz þeir komu að vatni nokkru; sáu þeir þá hvar maður gekk með vatninu mikill og þrýstinn, rak hann saman fé og fór með hundur. Leizt þeim maðurinn ógurlegur og skaut þegar skelk í bringu, kváðust nú heldur vilja vera við lítið hjá föður sínum en hafa þar líf sitt í tröllahöndum, sneru við það aftur og fóru heim til foreldra sinna. Karl undrast afturkomu þeirra svo skjóta, verður allstyggur og telur á þá harðliga, segir illt að eiga þá sonu er engi dáð fylgi og talar þar um bæði margt og hátt svo að Ásmundur heyrir í eldaskálann; skellir hann yfir sig og hlær, en leggur ekki orð til. Karl varð því styggri og kvað afglapann ei þurfa gjöra sköll að þessu, mundi honum öllu verr tekizt hafa. „Ei veit fyrr en reynir,“ segir Ásmundur. Féll svo þetta tal niður.
En er nokkuð var fráliðið vilja þeir Grímur og Þórir fara af stað aftur, knúði þá meir til þess eggjan karls en öfúsa þeirra, gjöra það þó einsætt og segja nú ei fara skyldi sem áður né upp gefa fyrr en þeir hefðu fundið Ólaf konung og gjörzt menn hans; býr karl þá enn ferð þeirra sem hann kunni, en kerling gengur á meðan í eldaskála til Ásmundar og segir honum ætlan bræðra hans, biður hann af alúð að fara með þeim; „er mér,“ segir hún, „ei síður til þín en þeirra; þykir mér illt að þeir skulu verða frægðarmenn, en þú engi“. Lét Ásmundur alltregliga og tók hvergi nærri því er hún mælti; kom þó svo tali þeirra að hún bað hann upp standa, ganga til föður síns og beiða hann fararefna; mælti hann þá ekki móti; tók hún nú af honum tötra alla og leppa er hann hafði í legið, þó hár hans og kembdi, var það þá gult sem silki og tók á herðar niður. Síðan færði hún hann í góð klæði; stóð hann upp svo búinn og var hverjum manni vænni og gjörviligri; gekk kerling þá til karls og segir honum hvar komið var með þeim Ásmundi, bað hann fá honum til ferðar sem bræðrum hans. Karl varð ókvæður við og kvað hana heimskari en segja mætti er hún hygði mannfýla sú mundi dáð drýgja, „vilda eg þó vinna til,“ segir hann, „að láta nokkuð fram og kæmi auli sá ei meir í augsýn mér“; gengur karl við þetta til smiðju sinnar er afsíðis var í eldaskála; hafði eldur gjör verið nýliga á gólfinu þar fram frá. Karl stígur nú upp á smiðjuna og seilist þaðan til ræfurs; tekur hann þar ofan brynju, hjálm og skjöld, allt gagnryðgað, en er hann vildi stíga niður hrapaði smiðjan og hann fram á eldinn, en sinn veg hvert vopnið úr höndum honum. Ásmundur lét karl liggja, en tók vopnin og skóf af ryðið, þá kom kerling að og mælti til Ásmundar: „Nú muntu, son minn, mega því halda er þú hefur hönd á komið því að ei mun faðir þinn búa þig meir til vopnanna en hann hefur gjört þar bæði er honum illt í skapi og hann meiddist af eldinum, mun ég nú leggja það til við þig er lítt mun lið í þykja og fá þér kolsköru mína.“ Selur hún honum þá í hendur sax mikið og svart, en alleiguligt, og mælti: „Þetta sax fékk ég að erfð eftir föður minn, hef þó ei farið með sem skyldi og skarað með því eld minn í viðlögum; haf það, son minn, og ber jafnan; mæli ég um að upp héðan snúist þér hver hlutur til heilla og farsældar.“ Nú tekur Ásmundur við saxinu og gengur utar eftir skálanum að steini miklum er þar stóð, höggur síðan saxinu í steininn, en það nemur hvergi staðar og klýfur steininn niður í gegn. Lítur Ásmundur þá við og sér að kerling liggur dauð á gólfinu og gapir beint á hann. Hafði hún dáið í því hann hjó steininn því að það var fjörsteinn hennar, þótti Ásmundi þetta mikið og illt.
Nú fara þeir af stað bræður þrír saman og skilja við köld híbýli; báðu þeir Grímur og Þórir Ásmund að fara ei þann veg er þeir fóru áður og segja þeir þar víst líftjón. Ásmundur gaf þar engan gaum að og fór þann veg hinn sama; getur ei ferða þeirra fyrr en þeir komu í skóg mikinn og síðan á mosa nokkra; sáu þeir þar skála stóran og mann á gangi mikinn vexti; hann bar björn á baki og stefndi að skálanum, átti þó enn þangað gildan spöl vegar. Jafnskjótt sem þeir Grímur og Þórir sjá manninn flýgur þeim felmtur í brjóst og biðja Ásmund í ákafa fara ei til skálans, „ella fáum vér allir bana,“ segja þeir. Varð Ásmundur að reita á þá mosa og lágu þeir þar eftir, en Ásmundur fór til skálans, gekk þar inn opnar dyr og lét hurðu síga í hálfa gátt, hljóp svo að baki hurðinni og stóð þar. Hundur rann fyrir risanum mikill og grimmligur, en risinn fór seinna því hann hafði þungt að bera; hleypur hundurinn geyst inn í skálann, en Ásmundur út með skyndi og skellir aftur hurðinni. Er nú rakkinn fyrir innan; kemur risinn þá heim og verpur niður byrði sinni, dýrinu og fuglakippu mikilli; heilsar Ásmundur honum og mælti; „Velkominn, bóndi.“ „Aldrei skyldir þú velkominn,“ segir risinn, „eða hvar eru mannskræfurnar bræður þínir, munu þeir nú hvergi framar bera hjartað en næst þá vér hittumst, en af þér mun ég illt hljóta; máttu þó flá með mér dýrið ef þú vilt.“ „Mælumst vel um, bóndi,“ segir Ásmundur, „eða hvert er heiti þitt?“ „Óvant er það,“ segir risinn, „og heiti ég Naddur.“ Síðan flá þeir dýrið og verður Ásmundur fyrri, vefur hann þá skinnið um hönd sér og slær því um eyru Naddi; hann reiddist við og spurði hví illmennið berði sig. Ásmundur hló og kvað það títt þá tveir flægju saman að sá er fyrri yrði skyldi ljósta skinninu um eyru þeim er seinni varð. Þess getur skáldið:
- „Ef mig skálkur skinni slær
- skal þér þetta leiðast,
- Ásmundur stökkur upp og hlær;
- ei muntu vilja reiðast.
- Þeim er skylt sem fyrri flá
- frægð að hrósa sinni,
- eitt sinn hinum eyru slá
- alblóðigu skinni.“
Spretta þeir þá upp Ásmundur og Naddur og taka að berjast í ákafa, verður atgangur þeirra hinn harðasti og sparir hvergi annan, heyrir rakkinn í skálann hvað um er, skilur að húsbóndi hans er illa staddur og tekur að láta grimmiliga og rífa hurðina, komst þó ei út. Lauk svo viðskiptum þeirra Ásmundar og Naddar að Ásmundur felldi Nadd og gekk af honum dauðum. Lágu bræður Ásmundar á mosanum meðan þeir Naddur börðust og gægðust stundum upp undan. En er Naddur var fallinn tók Ásmundur til hlaups þangað er þeir lágu, kallaði hárri röddu og kvað risann elta sig og bað þá duga sér; gjörði hann það til raunar við þá; þeim ógnaði því meir og grófu sig sem lengst niður; reif Ásmundur þá af þeim mosann og segir fall Naddar; urðu þeir þá yfrið fegnir, spruttu upp og gengu til skálans með Ásmundi, sýndu nú drengskap sinn og veittu Naddi mörg högg og stór þar til hann lá dauður, tóku síðan hræ hans og brenndu til ösku. Gjörði Ásmundur sér þá kefli, gekk með það til hurðarinnar og lauk upp; hljóp rakkinn þá móti honum með uppsperrtum kjafti og vildi rífa hann. Rak Ásmundur þegar keflið þversum í gin honum; lagðist hann við það niður og skreið til fóta Ásmundi, en tárin runnu eftir trýninu. Ásmundur klappaði þá rakkanum og mælti við hann þessum orðum: „Nú vil ég gjörast lánardrottinn þinn í stað Naddar. Skaltu veita mér alla slíka þjónustu sem þú veittir honum.“ Stóð rakkinn þá upp, flaðraði við Ásmund og fylgdi honum síðan. Varð Ásmundi að honum hið mesta lið þá hann átti við illar vættir. Þess minnist sá er kvað:
- „Ásmundur klappar hundi sín
- og með orðum gladdi:
- „Þú skalt alla ævi þín
- þjóna mér sem Naddi.““
Fóru þeir svo brott þaðan; létti Ásmundur ei fyrr en hann fann Ólaf konung og gjörðist hirðmaður hans. Reyndist hann hinn röskvasti í öllum mannraunum og fór jafnan með konungi. Hafði konungur hann mjög kæran; var Ásmundur hvert sinn fremstur hirðmanna þar harðræðum skipti.
Þess er getið eitthvert sinn er Ólafur kóngur sat um kyrrt eftir það hann hafði farið yfir Noreg og kristnað allan landslýð, fóru honum svo orð að ei mundi þá sá maður í Noregi er ei hefði tekið kristni jafnt við fjallgarð sem sjávarsíðu. Svo segir skáldið:
- „Kristnað höfum vér Noreg nú
- nærri sjá sem fjöllum.“
Hirðmenn svöruðu máli konungs og sögðu: „Því síður ætlum vér allt fólk kristið í Noregi að í eyju einni norður fyrir landi býr kona sú er Þorgerður heitir og kölluð Höldatröll; hefur hún ei trú tekið og setið lengi þar í eyjunni, en engan skatt goldið; hafa þangað sendir verið menn nokkrum sinnum að heimta skattinn, en engir aftur komið. Er Þorgerður full fjölkynngis og hin versta viðureignar.“ Konungi þótti mikils um vert og hafði þegar til orða við menn sína hvert nokkur vildi fara til eyjarinnar og sækja skattinn. Allir kváðust þess ófúsir, segja hverjum víst fjörtjón er gengi í greipar Þorgerði og töldu öll tormerki; lauk svo að engi varð til ferðarinnar; talar konungur þá til Ásmundar og biður hann fara. Ásmundur mælti: „Lítt em eg þeirrar ferðar fær er allir skorast undan, en sökum þess að þér biðið, herra, og ég veit mig manna skyldastan að gjöra það þér vilið skal ég ráðast til ferðarinnar hvað sem eftir kemur.“ Gladdist konungur við orð Ásmundar og bað hann mæla drengja heppnastan, lætur þegar búa skip og fær þar til þá menn er Ásmundur vill hafa, og er þeir eru búnir kveður Ásmundur konung og biður hann leggja til með sér giftu sína, segist hennar nú mjög þurfa, við slíkt sem eiga sé. Konungur játti því.
Sigla þeir Ásmundur síðan brott. Greinir ekki ferð þeirra fyrr en þeir koma til eyjarinnar og lenda þar einhverstaðar; sjá þeir á eyjunni bæ mikinn og reisiligan og þykjast víst vita að Þorgerður muni þar byggð eiga. Þá mælti Ásmundur til manna sinna: „Nú skuluð þér bíða mín hér við skipið, en ég mun ganga heim til bæjar og vita hvað þar er títt.“ Þeir báðu hann fyrir sjá; gengur hann svo heim til bæjarins og er hann kemur þar sér hann ekki manna úti, gengur síðan umhverfis bæinn og ristir reita um hann allt í kring. Ei var lokað dyrum, gekk Ásmundur inn og kallaði í hvert hús, en fann hvergi nokkurn mann. Um síðir kom hann að húsi nokkru langt innar í bænum; þar gekk hann inn og sá hvar kona sat að saumum, ung og afbragðsfríð. Kvaddi Ásmundur hana kurteislega; hún tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri og hvað hann héti. Hann kvaðst heita Ásmundur og vera hirðmaður Ólafs konungs, spurði hana síðan að nafni og ætterni. Hún svarar: „Ég heiti Hlaðvör, móðir mín heitir Þorgerður, ræður hún hér fyrir eyjunni og býr á þessum bæ, en faðir minn er andaður.“ „Hvar er móðir þín nú?“ segir Ásmundur. „Hún er að föngum.“ segir Hlaðvör. „Nær kemur hún heim?“ segir Ásmundur, „em eg sendur af Ólafi konungi að sækja skatt þann er hún hefur lengi haldið fyrir höfðingjum, í Noregi; kallar hann sér nú skattinn þar hann er konungur yfir landinu.“ Hlaðvör mælti: „Margir hafa hingað komið þess erendis; lízt mér svo að ei sértu síður en hver þeirra, en það mun mælt að þér takist giftuliga ef þú nær skattinum.“ Ásmundur mælti: „Vilt þú fara með mér á fund Ólafs konungs? Er þér það miklu betra en vera hér við heiðni og forneskju.“ „Þess mun ég ótreg,“ segir Hlaðvör, „ef þú sigrar móður mína og nær skattinum, en þess vil ég biðja þig ef þinn hlutur verður meiri að ei gangir þú af móður minni dauðri. Skaltu hér og ei lengi dvelja því lítt er móður minni skapfellt að menn séu á tali við mig.“ Gekk Ásmundur þá út og brá sér í leyni nokkuð við bæinn. Nú kemur Þorgerður heim og sér ei Ásmund; gengur hún inn til dóttur sinnar og segir gesti komna. „Hvað er marks um það?“ segir Hlaðvör. Þorgerður svarar: „Þá ég kom að bænum sá ég rista reita um hann öllum megin og er ég gekk yfir reitina brann ég á fótunum; mun þeim að vísu meiri máttur fylgja er þetta hafa gjört en öðrum sem oss hafa heimsótt.“ Gengur Þorgerður þá út aftur og sér þar Ásmund og mælti þegar: „Hér ertu kominn, Ásmundur, kenni ég þig gjörla, draptu Nadd og fylgir þér hundur hans, veit ég erindi þitt, þú átt að sækja skatt af eyju þessi fyrir Ólaf konung.“ „Svo er sem þú segir,“ segir Ásmundur, „og skaltu nú gjöra annaðhvert, gjalda skattinn eða ganga af eyjunni.“ Þorgerður svarar: „Á frest mun því skotið unz ég hef reynt við þig hinar sömu listir sem aðra er komið hafa þess erindis; veit ég þó ei hvað veldur að mér stendur af þér hiti.“ „Vera má að svo sé,“ segir Ásmundur, „og mun ég víst hætta til hverst er þú vilt reyna.“
Sú var fyrsta list Þorgerðar að hún óð eld svo að hana sakaði ekki, lét hún nú gjöra eldinn, gekk svo til og óð sem hún hafði áður gjört, bað síðan Ásmund ganga til og gjöra slíkt hið sama; gekk Ásmundur þá að eldinum og gjörði krossmark yfir, óð hann við það eldinn og sakaði alls ekki. Önnur listin var sú að taka skyldi sverð og höggva á beran fót Þorgerði er hún lagði á stokk; höfðu þeir og þar til gengið er fyrr komu og höggvið öllu afli, en ei beit á heldur en stein. Nú átti Þorgerður að höggva; lagði Ásmundur fót sinn á stokkinn og gjörði kross yfir, hjó Þorgerður þá tveim höndum og hugði ekki af að draga, en sverðið snerist í höndum henni og skar þær til meiðsla. Þá mælti Þorgerður: „Egi ertu einn að leiknum, Ásmundur, en þó er ei fullreynt nema þrisvar sé, er enn eftir ein list sem við skulum reyna, kveð ég á að ef þú leikur hana eftir mér skal ég yfirgefa eyjuna og skipta mér engu af henni þar í frá; skaltu nú ganga með mér til smiðju minnar og skulum við hafa þar hituleik.“ Sá leikur var Ásmundi ókunnur; ganga þau svo til smiðjunnar og sezt Ásmundur í aflgröf, fær Þorgerður honum naglatein og biður hann slá sex nagla og láta hvern vera glóanda, „skaltu,“ segir hún, „gleypa þrjá, en ég aðra þrjá.“ Ásmundur gjörir sem hún mælti, slær hann tvo nagla hvern af öðrum og fær Þorgerði; hún tekur við og gleypir báða. Þá sló Ásmundur hinn þriðja og signdi, fékk síðan Þorgerði, en hún fór með eins og hina. Jafnsnart sem sá nagli kom í munn henni brann hún mjög svo og dró af henni mál og mátt allan; lá hún þar eftir, en Ásmundur gekk út og ofan til manna sinna, bað þá ganga til bæjarins og bera þaðan alla hluti fémæta. Þeir gjörðu svo; gekk Ásmundur þá til Hlaðvarar og segir hve farið hafi með þeim Þorgerði og hvar þá var komið efndum hennar, spyr síðan hvert hana skal flytja brott eða láta þar kyrra. Hlaðvör mælti: „Lítt mun móðir mín eðli eiga við aðra menn og mun hún hníga til ættar sinnar; er því bezt að hún sé hér kyrr látin.“ Lét Ásmundur þá taka fé allt og gripi sem þar fundust og bera til skips, tók síðan Hlaðvöru og flutti með sér, en Þorgerður var eftir og er hún úr sögunni.
Sigldu þeir Ásmundur brott við svo búið; fórst þeim vel og fundu Ólaf konung; hann fagnaði Ásmundi og bað hann hafa þökk fyrir ferðina; færði Ásmundur konungi fé það allt er hann tók í eyjunni og var það allmikið. Síðan var Hlaðvör leidd fyrir konung og þótti kvenna vænst og gjörviligust; var hún þá skírð og kristnuð. Að því gjörðu hóf Ásmundur upp orð sín og bað konung gifta sér Hlaðvöru, kvað hann eiga sjá fyrir kosti hennar. Konungur svarar vel og segir engan þess ráðs makligra; varð það af að Ásmundur festi Hlaðvöru, en konungur hélt brúðkaup þeirra, lét hann síðan fólk í eyjuna til byggðar, en þau Ásmundur og Hlaðvör voru með honum í góðu yfirlæti.
Nokkru síðar kom sá kvittur fyrir Ólaf konung að enn mundu þeir menn við fjallgarð nokkuð úr almannabyggð er ei héldu kristinn sið. Var til þess greint einvirðiliga fólk nokkuð er byggi í afdal einum norður frá Naumudal, væri fátt á bæ, fremdi fyrnsku og tryði á kvikindi nokkuð óskapligt. Konungur undraðist það og vildi víst vita hið sanna; lét hann búa ferð sína snarlega og reið svo norður til dalsins; með honum var Ásmundur, fylgdi honum þá sem jafnan rakkinn Naddarnautur. Tveir menn eru nefndir aðrir, Grímur og Sigurður; þeir voru vaskir og vel að sér. Riðu þeir nú sem leið lá og úr almenningsbyggð unz þeir komu í dal nokkurn; sáu þeir þar mikinn húsabæ og stefndu þangað; en er þeir komu nærri bænum reið konungur undan og kringum allan bæinn; var þar ekki manna úti. Litlu síðar kom út maður gamall; hann heilsaði konungi og segir hann velkominn og menn hans og bauð honum til stofu. Konungur þiggur það og gengur inn og þeir allir. Þar voru góð híbýli og stofan vönduð að hvívetna; reis þar brátt upp væn veizla og skorti ei gott öl né önnur drykkjuföng; kom kerling þá í stofuna og son þeirra karls, en dóttir þeirra sat á palli í stofunni við sauma og var bæði ung og fríð.
Nú fer veizlan fram skörugliga, en konungur litast einatt um hvert enga nýlundu sjái hann meiri. Karl er hinn beinasti og biður konung hafa lítillæti að eta þar mat. Konungur kvaðst það þiggja vilja. Kemur þegar í stofuna kvikindi ferligt og skringiligt og heldur á dúki forkunnar vænum, var sá víða dreginn gulli og hin mesta gersemi, gengur kvikindið framan að borðinu og breiðir þar á dúkinn, var þetta fulltrúi karls og kerlingar og sonar þeirra, en dóttir þeirra veitti honum engan átrúnað og amaðist æ við honum; deildu þær oft af því mæðgur. Var þetta ekki annað en hestskökull er þau karl og kerling höfðu blótað og magnað svo miklum fjandans krafti að hann gekkst um með þeim sem maður og starfaði að öllu er þau þurftu, fór líka í ýmsa staði, stal fé og gersemum og dró til þeirra. Nú furðar konung tvennt í senn, fyrst hve sá er herfiligur sem breiðir dúkinn, í annan stað hversu fríður að er dúkurinn; þykir konungi hann sæmilig eign dýrri mönnum. Ásmundur sat fyrir ofan borðið, hann tekur til orða og spyr hvaða fjandi það sé sem dúkinn breiðir. Kerling heyrði það og mælti: „Engum manni þoli ég að lasta guð minn.“ „Er þessi guð þinn?“ segir konungur. „Svo er víst,“ segir kerling, „trúum vér á hann öll þrjú, bóndi minn, ég og son okkar, en dóttir mín er svo illa skapi farin að hún veitir honum enga þjónkan hvernin sem ég beiði.“ „Á guð þinn nafn nokkuð?“ segir konungur. „Á hann víst,“ segir kerling, „og heitir Völski.“ Í þessu kemur matur á borð; var það bjarnarslátur og endikólfar digrir og stórkostlegir. Þess getur skáldið:
- „Þar var á borðum bjarnarslátur og bjór í könnu,
- endikólfar ósmáleitir,
- undrast þetta kóngsins sveitir.“
Þá mælti konungur: „Þess erindis em eg hér kominn að boða yður kristni; skuluð þér ei lengur trúa á djöful þenna, heldur á guð almáttkan er skóp himin, jörð og alla hluti.“ Kerling svarar: „Svo lízt mér, konungur, sem ei muni sá guð er þú boðar draga meira til mín af dýrgripum og öðrum gæðum en þessi er ég hef lengi þjónað.“ Konungur mælti: „Ei er sá annað er þú hefur þjónað en illur andi sem þér hafið ragnað að yður úr helvíti með vondum ummælum; hefur hann það eina dregið til yðar er hann stal aðra, en ætlar yður að lyktum eilífa tapan lífs og sálar.“ Talaði konungur úr þessu langt erindi og snjallt og boðaði þeim rétta trú. Kerling mælti fast í móti og bað konung ei fara með þá heimsku að hún tryði á annan guð en Völska hvað sem í gjörðist. Nú gengur Völski um beina og þjónar fyrir borðinu, verður svo að hann seilist yfir það þar til er Ásmundur sat; hann stendur skjótt upp og tekur til Völska, hrindur honum áfram og biður fjandann brott dragast, tryllist Völski þegar og tekur til Ásmundar, en hann hrindir fram borðinu með öllu því á var, slær þar í hörð átök með þeim Völska, rís kerling upp við það og ræðst á konung, karl á Sigurð, og karlsson á Grím, en mærin sat kyrr og skipti sér engu af. Verða nú harðar sviptingar með þeim öllum því engan skorti aflsmuni; geingur þá flest úr lagi sem í var stofunni, en margt brotnar. Verður það fyrst tíðinda að kerling kemur konungi á annað kné; tekur hann henni þá hryggspennu, keyrir hana á bak aftur og brýtur í henni hrygginn, lét hún svo líf sitt; var fyrst úti viðureign þeirra konungs; sagði konungur svo síðan að ei hefði hann tekizt á við meira flagð en kerling var; hleypur konungur nú þar til er þeir eigast við Ásmundur og Völski; þótti honum Ásmundur mjög liðþurfi, en hinir minnur; gengust þeir að allgrimmliga Ásmundur og Völski, lét rakkinn og í frammi slíka grimmd er hann hafði til og þreif Völska óþyrmilega. Eru þeir nú um hann þrír saman, konungur, Ásmundur og rakkinn, og hafa allir fullt í fangi. Verður það þessu næst að Sigurður banar karlinum, því hann mæddist fyrir elli sakir, og ei löngu síðar Grímur syni karls; hafði þeirra sókn verið hin harðasta því báðir voru æskumenn og allsterkir. Skunda þeir síðan til liðs við þá konung og Ásmund. Eiga þeir svo allir fjórir við Völska; varð það loks eftir langa þraut með guðs miskunn og giftu Ólafs konungs að þeir gátu stigið yfir þann fjanda, voru þó allir mjög þrekaðir. Sagði Ásmundur svo síðan að aldrei hefði hann átt við slíkt ofurefli sem Völska né í slíka raun komið; er það sumra manna sögn að úr því væri Ásmundur styggri í lund en áður. Lauk svo þessum atgangi.
Nú tekur Karlsdóttir að gráta, ei svo skarð ættar sinnar sem hitt er hún ætlaði að konungur mundi láta hana taka gjöld fyrir illvirki foreldra hennar og drepa hana á fætur þeim. Konungur fann það brátt og bað hana vera glaða, lézt ei annað hyggja um ráð hennar en það er vel gegndi. „Skaltu,“ segir hann, „fara með mér og taka kristni; mun ég þá gjöra hlut þinn svo góðan að þú megir vel við una.“ Lét nú konungur taka það allt er fémætt var á bænum; var þar mikill auður saman kominn og margt góðra gripa, bað síðan brenna bæinn og þá þar inni er látizt höfðu og lézt ei vilja að illmenni drægist þangað; var það svo allt brennt til ösku.
Þá mælti konungur til Ásmundar: „Nú mun ég auka nafn þitt og kalla þig Ásmund flagðagæfu, þykir mér það fæstir menn þeir er nú lifa hafi slíka gæfu til að vinna flögð og óvættir sem þú.“ „Góð eru orð þín, konungur,“ segir Ásmundur, „en hvað skal fylgja nafni?“ Konungur gaf honum gullhring og kvað hann skyldu hafa það í nafnfestu; var hann síðan kallaður Ásmundur flagðagæfa og bar það kenningarnafn meðan hann lifði. Eftir þetta fór konungur heim og flutti með sér karlsdóttur. Svo segir skáldið:
- „Dögling flutti dóttur karls úr dalnum norðan,
- sú ei hafði galdur gjörðan,
- geðsöm þótti hringa skorðan.“
Tók hún síðan skírn og giftist Sigurði.
Svo er sagt að einhvern tíma eftir þetta fór Ásmundur að vitja föður síns og fann hann þá enn lífs og er þeir hittust þekkti karl ei son sinn og spurði hver hann væri. Ásmundur mælti: „Þá man ég dagana að þú kenndir mig er þú féllst af smiðju þinni á eldinn og varst kominn að dauða.“ Þess getur sá er kvað:
- Þú þekktir mig þá, kíminn karl,
- kominn í illa hneisu
- nær þú fékkst það feikna fall
- flatur í miðri eisu.“
Lýkur hér svo inntaki söguþáttarins af Ásmundi flagðagæfu.