Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jólanóttin

Það hefur mér verið sagt þá embættað var á jólanóttum að á einum bæ hafði það til borið að sá kvenmaður sem heima var látin ein vera því fólk fór allt af bænum ungir og gamlir sem siður var til, að allir fóru af bæjum þá nótt til að hlýða á tíðir, en skilinn eftir einn kvenmaður til að gæta að heima, – þessi kvenmaður á bænum var galin orðin þá fólkið heim kom. Fór so fram nokkrar jólanætur á þeim bæ, en ei mátti af vana bregða, að allt fólkið færi ei til tíðanna. Vildu fáar sig til gefa heima að vera; þó varð þar altíð einhvör til það að gjöra. Nú hafði verið um vor eitt tekin vinnukona. Barst nú að henni heima að vera þá fyrstu jólanótt er hún var þar. Hún vissi hvörnin farið hafði fyrir hinum er áður heima höfðu verið.

Nú þá fólkið var á stað komið kveikir hún ljósin og setur hér og hvar um bæinn; síðan fer hún á rúm sitt og fer að lesa með sjálfri sér í bókinni; stúlkan var vel að sér og guðhrædd. Þá hún hafði litla stund setið kemur í bæinn margt fólk, karlmenn, kvenfólk og börn. Þetta fólk tók allt til að dansa með ýmislegum dansleikum; það talaði til stúlkunnar og biður hana að koma í hópinn og dansa með sér, en hún þegir og situr kyrr, lesandi í bókinni. Það biður hana að koma og býður henni eitt og annað til þess að hún komi til þess. En hún svarar öngvu og situr kyrr sem fyrr. Þetta gekk einatt að það var að dansa og biðja hana til sín að koma. En það tjáði ekki; hún sat kyrr þó það byði henni að gefa stórar gjafir; gekk þetta alla nóttina; en þá komið var að degi fór það á burt, en heimafólkið kom; bjóst það við að hún mundi galin orðin sem hinar. En þá það kom sá það hana eins vera og það við hana skildist. Það spurði hana að hvört ei hefði neitt fyrir hana borið. Sagði hún þá frá hvörnin til hefði gengið um nótt þessa; hún sagðist og hafa vitað það að hefði hún gefið sig í dansinn með því þá mundi hún hafa orðið sem hinar er heima hefðu áður verið. Var hún so látin heima vera hvörja jólanótt meðan hún var þar og altíð hafði sama gengið.