Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jón Árnason frá Hömrum
Jón Árnason frá Hömrum
Það er upphaf þessa ævintýris að bóndi bjó á Hömrum í Reykjadal sá er Árni hét. Jón er nefndur sonur hans. En á árum þeim þegar Jón var nær því fulltíða maður var það almennur siður í sveitum að taka brennistein úr brennisteinsnámunum á Mývatnsfjöllum, flytja hann til Húsavíkur og selja hann þar útlenzkum. Námarnir eru tvennir og eru kallaðir Reykjahlíðarnámar og Fremrinámar.
Nú bar það til á einu vori að Reykdælir fóru að flytja brennistein og einn með þeim Jón Árnason frá Hömrum, og fóru í Fremrináma; en áfangastaður er þá altíð hafður í Heilagsdal því hagi fyrir hesta fæst ei nær námunum fyrir hrauni og söndum. Dalur þessi er undir Bláfjalli. Svo þegar þeir eru búnir að sleppa hestum sínum á beit sofna þeir í tjöldum sínum. En er ferðamenn vakna aftur sjá [þeir] hvergi fyrnefndan Jón. Fóru þeir þá að leita hans og fundu hann loks upp í fjallshlíðinni sofandi. En er þeir vöktu hann brá þeim illa við, því Jón var orðinn mállaus og næsta undarlegur, og vanheilsa þessi hélzt meðan hann var á ferðinni og svo eftir að hann kom heim, að Jón var mjög sinnulaus. En að nokkrum tíma liðnum ber það til einn morgun að Jón fer snemma á fætur og býr sig til ferðar og fer vestur yfir Fljótsheiði og inn í Ljósavatnsskarð; kemur heim aftur um kvöldið og hefur þá fengið málið og heilsu sína. Fara menn nú að spyrja hann hvernig hafi staðið á málleysi hans. Hann segir að þegar hann ásamt fylgjurum sínum hafi verið sofnaður í tjaldinu í Heilagsdalnum hafi sig dreymt að kona ung kæmi til sín, tæki í hönd sér og bæði sig að fara með henni; hefur hann þá ekki móti því. Leiðir hún hann þá upp í fjallið til móður sinnar er þar var fyrir. Taka þær þá til að biðja Jón að setjast að hjá þeim og eiga hina yngri, en hann neitar því þvert. Reyndu þær þá til að lokka hann með ýmsum boðum, en það tjáði eigi. Þá buðu þær honum að borða hjá sér, en hann þáði þáð ei heldur. Þá reiddist sú eldri og sagði hann mundi þó einhvern tíma verða feginn mat sínum; og þar með lagði hún það á hann að hann skyldi verða mállaus og hverki sjálfum sér né öðrum til gleði. En nóttina áður en hann fékk málið dreymdi Jón hina yngri konuna að hún kom að honum og mælti: „Þá rækt hef ég nú til þín þó þú vildir ekki vera hjá mér að nú skal ég lækna málleysi þitt. Þú skalt fara inn í Ljósavatnsskarð og taka gras[1] sem sprettur þar undir steini nokkrum,“ (er hún vísaði honum til), – „það gras skalt þú leggja undir tungu þér og þá mun þér batna.“ Síðan er sagt að konan hafi löngum fundið Jón – helzt í draumum – og verið vinka hans. Sagt er einnin að Jón gæti þegið mat sinn um ævi sína því hann var kallaður nær því óseðjandi. Hann giftist og bjó bæði í Kinn og Reykjadal og nokkrir menn eru enn á lífi sem sáu Jón. Börn hans eru sáluð, en barnabörn lifa.
- ↑ Sumir segja grasið hafi verið jafni. [Hdr.]