Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jón smali og huldufólkið

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón smali og huldufólkið

Maður er nefndur Kristján; hann bjó á þeim bæ sem heitir að Geitafelli. Sá bær er í Þingeyjarsýslu og á land fram til fjalla. Kristján bóndi var vel fjáreigandi og nokkuð harðgjör. Hann var kvongaður og átti þá konu er Sigurlaug hét. Hún var góð kona. Eigi var fleira hjóna á bænum en þrennt: vinnukonur tvær, hét önnur Margrét en hin Guðný, hún var um tvítugs aldur er þessi saga gerðist; hið þriðja hjú var smaladrengur Jón að nafni; hann var alinn upp á sveit og var þá fyrir skömmu fermdur er hér var komið. Hann var einfaldur og fálátur hversdaglega, en þó hinn ráðvandasti í öllu athæfi sínu. Það var á einhverjum vetri að þeim hjónum var boðið til veizlu nokkurrar skammt þaðan í byggðina og bjuggust þau að fara um morguninn þann dag er veizlan skyldi standa. Kristján bað Jón vel gæta fjárins um daginn og láta það heldur inn í fyrra lagi, því hann vildi eigi að vantaði af fénu ef veður kynni að spillast; bað hann að þær stúlkur skyldi hjálpa Jóni til að láta féð inn um kvöldið.

Eftir það fóru þau hjón til veizlunnar, en Jón sat að fénu um daginn. Veður var bjart og hreint og frost nokkuð. Líður nú dagurinn og fram á kvöldið svo að Jón kemur ei heim með féð. En er nokkuð er af dagsetri þá kemur hann um síðir. Þær stúlkur fara þegar til móts við hann til húsanna og vildu hjálpa honum að láta inn féð. Þær yrkja orða á hann, en hann svarar þeim engu. Tekur hann nú að láta inn féð og kastar hann frá sér kindunum mjög harkalega er þær tróðust þar að dyrum sem hann vildi eigi; lágu ær drjúgum flatar er hann þeytti þeim frá sér. Griðkonur furðaði á þessari meðferð því Jón var því jafnan vanur að vera góður við féð enda var hann spakur og hægur í lund. Þær fréttu hann eftir, hverju þessi harki gegndi eður hvort hann hefði átt nokkuð erfitt í dag, en það var enn sem fyrri að þær fengu ekki orð af honum. En jafnskjótt og féð var inn komið í húsin þá fleygir Jón sér niður þar á völlinn hjá húsunum og er þegar sofnaður. Þær stúlkur vilja vekja hann, en það tjáir eigi. Þær taka nú það ráð að þær sækja heim brekan og leggja hann þar á, og fá þær þannig borið hann heim til bæjarins og upp í rúm og vaknar hann eigi að heldur. Guðný hefir orð um það við Margréti hverju það muni gegna að sér finnist vínlykt af Jóni, og furðar þær mjög á þessu.

Nú líður fram á kvöldið svo að Jón vaknar ekki og koma þau heim frá veizlunni bóndi og húsfreyja. Kristján bóndi tekur til orða er hann kemur í baðstofu, og mælti: „Hér hefir þá verið tekið í staupinu eigi síður en í veizlunni, eða hver hefir komið í dag?“ Þær svara stúlkurnar og segja að þar hafi engi maður komið. Þetta þykir bónda kynlegt. Fer hann nú til og vill vekja Jón, en það tjáir ekki, hann sefur sem áður. Verður þá bóndi þess var að honum er brugðið; er hann víða blár og marinn og hold hans hlaupið í hnykla svo sem eftir átök nokkur mikil. Líður svo nóttin að engi fær vakið Jón eða haft orð við hann. Og er morgunn kemur fer bóndi sjálfur með fé sínu.

Jón vaknar nú um síðir og er þá þrekaður mjög og máttfarinn. Húsfreyja gengur þá til tals við hann og fréttir hann eftir blíðlega hvernig standi á sjúkleik hans eður hvað honum hafi til handa borið. Hann vill það eigi segja. Hún biður hann ei dylja sig hins sanna. Kveður hún bónda sinn víst munu vilja vita hver efni hér sé í þá er hann komi heim, og muni hann þá verða að segja hvort hann vili eður eigi og sé honum það ekki betra. Jón anzar þessu engu og rennur nú enn á hann svefnhöfgi nokkur og var þó sem hann vekti. Húsfreyja tekur þá hönd hans og mælti: „Hvernig leið þér í gærkvöldi, drengur minn?“ Hann svaraði og kvað féð hafa farið nokkuru lengra en það hefði verið vant; lézt hann þá hafa ætlað að reka það saman, en þá hefði hann hitt fyrir sér bæ; þar hefði hann dvalið um stund og þegið góðgjörðir, vín og önnur gæði, hjá því fólki er þar byggði; eftir það hefði hann farið til fjárins og viljað hóa því saman; hefði þá komið að sér ókunnur maður allillilegur og sagt að hann skyldi ekki að ósekju beita aftur land sitt. Hefði hann þegar ráðið á sig, en þá hefði sveinar tveir nokkuru yngri sér komið þar og veitt sér lið við karlinn; hefði þar nú orðið sviptingar miklar og mundi þó karlinn brátt hafa yfir þá stigið ef eigi hefði annað að borizt. En í þessum svifum hefði þar komið að þeim tveir menn rösklegir þeim til hjálpar; hefði þá karlinn flúið og við það kvaðst hann hafa sloppið, enda hefði liðsmenn sínir þá hvorfið sér, og þótti honum svo sem það myndu verið hafa huldumenn. Lézt hann oftar hafa orðið var við drengina. Jón lá síðan lengi og varð aldrei jafngóður; fór eftir það til vistar austur á Jökuldal, lifði þar þrjá vetur og andaðist síðan.