Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Jarlsdóttir í tröllahöndum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jarlsdóttir í tröllahöndum

Það bar til sem oftar að nokkrir Skagfirðingar fóru síðla sumars til róðra á Suðurnes. Þeir vildu stytta sér leið og fóru Grímstungnaveg nálægt Arnarvatnsheiði. Vildu þeir verða fljótir í ferð og fóru suður með jöklum, en þegar dró upp á öræfin gerði frosthríð með þoku svo þeir villtust; komu þeir loks að háum klettahjöllum með hávum hömrum; var þá komið að kveldi og leituðu þeir sér hælis; fundu þeir hjá klettbergi einu hellir, fóru að skoða hann og gátu komizt þar inn með hesta sína og áhöfn; gáfu þeir hey hestum sínum, en fóru sjálfir og mötuðust. Þegar þeir unnu að þessu kom fram til þeirra kvenmaður dægilegur að sjá, en þagði. Þeir ávarpa hana og spurja að nafni, en hún kvaðst heita Ásgerður. Þeir spurja hvurt hún sé þar ein. Hún kvað ekki fleiri menn þar vera. Þeir spyrja því hvað valdi; hún gaf lítt út á það; síðan hverfur hún þeim aftur. Um morguninn var komið gott veður; búast þeir að ferðast. Kemur sama konan og talar fátt. Þeir gefa henni mat. Fara þeir síðan burt. Einn þeirra var ásjálegur og mestur fyrir mann að sjá. Þegar þeir eru komnir lítinn spöl burtu þrífur hann til vasa síns og vantar hann kníf sinn; hann snýr aftur til hellirsins og fer að leita. Kemur þá konan og spur hvurt hann vanti nokkuð. Hann sagðist leita að knífi sínum. Hún kvaðst því valda og fékk honum knífinn, sagðist hafa gjört þetta því hún hefði viljað tala við hann einan fremur en hina. Sér sýndist hann fyrirmannlegastur þeirra félaga. „Vildi ég hafa sagt þér hvurs vegna ég væri þar. Ég var numin frá Svíþjóð; er ég jarlsdóttir frá Gautlandi og sóktu mig hamförum karl og kerling tröllaukin; þau áttu ungan son og ætluðu til hann ætti mig, en ég bað um frest þrjú misseri; varð á þeim tíma það tilfelli að ungi maðurinn veiktist og dó. Karl og kerling voru mér vel; þjónaði ég þeim nokkur ár; veiktist þá karlinn og dó. Var ég þá hjá kerlingu því ég vissi ekki neitt hvað fara skyldi í mér ókunnu landi, sá líka aumur á kerlingu að yfirgefa hana. En að litlum tíma liðnum dó kerling og hef ég verið hér síðan. Er nú bón mín til þín að koma nú að vori og taka mig héðan ef ég er þá lífs, því þungt er að lifa hér.“ Hann lofaði henni því. Kvöddust þau og fann hann fylgdarmenn sína sem biðu hans. Að vorinu þegar hann fór norður fór hann og leitaði hellirsins, fann stúlkuna lifandi og tók hana með sér til byggða. Varð hann að fara aftur og sækja eigur hennar sem samstóð í margbreyttum gersemum. Víxlaði hann því fyrir góða ábýlisjörð; giftist hann síðan Ásgerði og urðu þeirra samfarir góðar – og er þá búin sagan.