Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kóngshöll á Tungudal
Kóngshöll á Tungudal
Á Stíflu í Fljótum er stór afdalur óbyggður sem heitir Tungudalur.[1] Má ganga hann úr Stíflu inn í Unudal á Höfðaströnd. Nálægt vatninu á Tungudal er klöpp mikil eða borg sem heitir Kóngshöll[2]; halda menn hún sé höfuðból huldufólksins á Tungudal.[3] Hér um bil árið 1836 heyrði ég í Fljótum sögu eina sem ég nú er búinn að mestu að gleyma, en aðalatriðin voru þessi:
Kona hét Þóra; hún gekk, ekki fyrir svo löngu (c. 1810) fram Tungudal og ætlaði inn í Unudal.[4] Þetta var um kvöldtíma[5] í hjarni og tunglsljósi. Segir ekki af ferð hennar fyrr en hún kemur nálægt Kóngshöllinni; þá sá hún mikla höll og skrautlega. Sá hún þar inni fjölda fólks, alla skrautbúna, sem voru að dansleikum og fóru að bjóða henni í dansinn, og gat hún varla af sér staðizt freistni þessa, „en henni vildi það til allrar guðslukku að hún hafði með sér alsporaðan hund;“ hvort um lit hans er getið man ég ekki; annars hefði víst huldufólkið hyllað hana inn í höllina, en hundurinn varnaði því. En langa stund stóð hún eins og agndofa og horfði á dansinn. Loksins seint og síðarmeir hafði hún sig burt og komst um nóttina heim að Tungu með hundinum sínum.
- ↑ Dalirnir fram af Stíflu heita: A. Tungudalur, vestur úr miðri Stíflu í SV. B. Móafellsdalur, sunnar í SV. C. Hvarfdalur (talað Kvarfdalur), beint í suður. D. Láheiði, þannig að Heiðarhöllin liggja beint í austur, en þá kvíslast a Klaufabrekknadalur í SA og b Láheiði í NA niður til Ólafsfjarðar.
- ↑ Máske nafnið Kóngshöll sé dregið af því að menn hafi einhvern tíma haldið að álfakóngur byggi þar.
- ↑ Á Móafellsdal er kirkjustaðurinn í Valshömrum.
- ↑ Fjallvegurinn er stuttur og auðrataður.
- ↑ Þetta minnir mig heldur væri en hitt að hún væri á heimleið úr Unudal. [Allar nmgr. úr hdr.]