Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kýrnar tólf í Höfða

Þessi saga gjörðist í Höfða við Eyjafjörð í Þingeyjarþingi. Sjómenn þaðan reru einn dag með handfæri út með Höfðanum er bærinn stendur sunnan undir og dregur nafn af. Ekki nefnir sagan nöfn þeirra, en hitt segir hún að einn þeirra setti í ærið þungan drátt og þegar hann kom að borði vildu hásetar ná í dráttinn með ífærum og öðru venjulegu. En þetta var þá stúlka lifandi og að öllu sem aðrir menn, en ekki mælti hún orð frá munni; fluttu þeir hana í land og var hún í Höfða til jafnlengdar á annað ár. Alla þá stund fengu menn ekki orð af henni og var þess þó leitað á ýmsa vegu og henni öllu góðu heitið; en það kom fyrir ekki. Loksins var henni heitið að hún skyldi verða flutt fram á hinar fyrri stöðvar sínar þar sem hún hafði verið upp dregin, þá glaðnaði hún í bragði, en ekki mælti hún. Var hún því haldin mállaus. Henni voru fengin verk að vinna og sást það brátt að hún var vel að sér í hannyrðum Hún var því látin sauma altarisklæði; var það af mesta hagleik unnið. Á klæði þessu var krossmark, en neðan undir tvær mannamyndir, líklega Jóhannesar og Marju móður Krists. Klæði þetta var sent forngripasafninu í Kaupmannahöfn sem aftur sendi altarisklæði það sem enn er við líði í Höfða

Þegar komið var að jafnlengd árið eftir var hún samkvæmt loforðinu flutt fram á sömu stöðvar sem hún hafði verið upp dregin; þá losnaði tunguhaft hennar og mælti hún við menn. Sagðist hún hafa verið að skýla hjá eldhúsglugga móður sinnar þegar öngullinn kræktist undir belti hennar; einnig sagðist hún mundi senda á land vott þakklætis síns fyrir veturvistina á vissum tilteknum degi í svokallaða Kvígudali sem ganga upp frá Eyjafirði vestan í fell eitt allmikið sem nefnt er Höfði. Litlu síðar gengu úr sjó tólf kýr og eitt naut með koparhring í horni, með blöðrum fyrir nösum eins og blöðruselur. Náðist einungis ein kýrin sem í Höfða æxlaði kyn sitt, annáluð fyrir framúrskarandi gæði til mjólkur. Ekki náðist nautið, en koparhringurinn náðist úr horninu hans og var hann mörg ár í kirkjuhurðinni í Höfða. Á endum hans voru tvær nautsmyndir, en gengu að því koparstykki er hann var við festur. Járn var innan í honum, en kopar steyptur utan um.