Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Karl og Kerling

Tvö tröll framan úr Breiðafjarðardölum tóku sig til eina nótt og brugðu sér vestur yfir Breiðafjörð, vestur í Flateyjarlönd. Sóttu þau þangað ey eina sem þau ætluðu að gefa Snóksdalskirkju og fara með hana með sér suður í Snóksdalspolla; þeir eru fyrir norðan mynnið á Hörðudal í Breiðafjarðardölum, við Hvammsfjörð. Karlinn gekk á undan og teymdi eyna, en kerling rak á eftir. Nú segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þau voru komin með eyna suður yfir Breiðafjörð og inn á Hvammsfjörð. En þegar þau voru komin með hana framundan Staðarfelli dagaði tröllin uppi svo eyjan varð kyrr í Staðarfellslöndum og er hún þar enn í dag og heitir Lambey. Karl og kerling urðu við það bæði að steindröngum, karlinn fyrir innan eyna því hann var á undan og er bilið svo lítið milli hans og eyjarinnar að þar má stiga á milli; karlinn er sjálfur hár og mjór steindrangi. Kerlingin varð að steindranga fyrir utan eyna og er hún lengra frá eynni en karlinn; hún er og nokkru lægri en hann, en góðum mun gildari. Drangar þessir heita enn Karl og Kerling.