Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ketilvallakirkja
Ketilvallakirkja
Gissur biskup sá er annar var biskup í Skálaholti lét reisa kirkju á Ketilvöllum í Laugardal í Árnessýslu og stóð hún þar lengi. Þar sér enn til kirkjugarðsins. Síðan var hún flutt að Miðdal og er þar síðan. Laugardælir segja þessa sögu um kirkjuflutninginn:
Fyrir austan bæinn í Miðdal er gil eitt með dimmum gljúfrum í er upp dregur í fjallið. Þar bjó gýgur ein í helli í gljúfrinu og nam burtu efnilegasta mann í Laugardal á jólanótt hverri. Báru þá Laugardælir vandkvæði sín upp fyrir biskupi í Skálaholti, en hann réði þeim til að flytja kirkjuna sem næst gilinu og hringja í sífellu allar jólanætur. Þetta var nú gjört og fældist þá gýgurin úr gilinu.
Sumir segja að gýgurin hafi flutt sig norður á fjöllin í skarð það sem Klukkuskarð heitir. En þá voru fluttar klukkur í skarðið og gýgurin fæld burtu þaðan með hringingum. Af því dregur skarðið nafn. Klukkuskarð er á vegi þeim sem liggur úr Laugardalnum norður að Skjaldbreið.