Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Kolurúm og Koluhóll

Skammt frá bænum að Kolugili eru gljúfur mikil sem kölluð eru Kolugljúfur. Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum. Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilzt niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.

Heima við bæinn að Kolugili er hóll einn sem kallaður er Koluhóll. Í hól þessum á Kola að vera heygð og hefir oft verið reynt að grafa í hólinn, en ætíð verið hætt við því annaðhvort hefir Víðidalstungukirkja sýnzt vera að brenna ellegar Víðidalsá renna upp á eyrarnar fyrir sunnan Kolugil og stefna á bæinn. Nú er komin skál ofan í hólinn að mestu kringlótt og er hún tveggja-þriggja álna að þvermáli.