Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Látrabjarg á Látraströnd
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Látrabjarg á Látraströnd
Látrabjarg á Látraströnd
Í Látrabjargi var fyrrum fullt af fugli sem sigið var í á vissum stað er vígður var af Guðmundi biskupi góða. Var festin tólfþætt og hver strengur helgaður þeim ellefu postulum, en hinn tólfti sankti Páli.
Nú einu sinni var farið og sigið í hinn óhelgaða stað og það á sjálfa hvítasunnu. Þegar maðurinn var kominn ofan í festinni sást grá hönd koma út úr berginu og sleit (skar) á strengina svo allir fóru í sundur nema þáttur sá er helgaður var sankti Páli, hann hélt. Maður kallaði upp til vaðarhaldaranna sem drógu hann upp með heilu og höldnu, en rétt í því hann var kominn upp hrundi bergið fram sem merki sér til enn í dag. En allur fugl flaug á brott og hefir aldrei setzt þar síðan, og aldrei meir sigið í bjargið.