Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Legg í hendi karls, karls
„Legg í hendi karls, karls“
Það var á einum bæ að börn voru úti hjá einum hól að leika sér, eitt stúlkubarn ungt og tvö piltbörn eldri. Þau sáu holu í hólnum, þá skyldi þessi stúlka sem yngst var af þeim hafa út rétt inn í holuna hendina og sagt af barna háttsemi að gamni: „Legg í hendi karls, karls, karl skal ekki sjá.“ Þá átti að hafa verið lagður stór svuntuhnappur í barnsins lófa, gylltur. Þá hin börnin sáu þetta öfunduðu þau þetta barn; þá hafði það elzta rétt inn hönd sína og sagt hið sama sem hið yngsta sagði, þenkti þetta elzta að hljóta ei minna hnoss en það yngsta hafði hlotið. En það lánaðist ei því þetta barn fékk ekkert utan visnaða hönd sína þá það hana út tók úr holunni og varð so meðan það lifði.
So álitu þessir jarðarbúar tilgang barna þessara að það fyrra af barna æði rétti inn hendina og af gamni talandi, en hitt seinna gjörði það af ágirnd og öfund hvað þeir létu í ljósi við aðgjörðir við barnanna viðhöndlan.