Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Missögn af Árna
Missögn af Árna
Foreldrar Árna bjuggu á Rifkelsstöðum og áttu mörg börn. Árni var á sjötta ári er saga þessi gerðist. (Nær þrjátíu ár eru síðan Árni dó.)
Það var einn dag að Ingibjörg systir hans, þá á ellefta ári, átti að reka kýr þar upp á hálsinn. Árni vildi fara með, en móðir hans vildi það ekki; þó varð það úr að þau fóru bæði og ráku kýrnar upp á hálsinn. Kolniðaþoka var fram á dalnum og nokkur kringum þau. Nú vill Ingibjörg snúa heimleiðis, en hann vill þá ei fara, því hún taki skakka stefnu því þarna sé bærinn, og bendir fram í þokuna. Hún vill koma honum af því, en það er ómögulegt. Nú atlar hún þá að draga, en hann verður æ því verri. Hún hugsar hann geri þetta af þráa, fer á stað heim og hugsar hann komi á eftir. Hún leitar aftur einu sinni og þá stóð hann kyrr. Hún fer svo heim, en ekki kemur Árni. Þá spyr móður hans Ingibjörgu hvar hann sé og segir hún móður sinni þá satt frá öllu, og verður hún þá hrædd og er nú fengið fólk frá næstu bæjum og varð konan á Stórhamri, Guðrún að nafni, í leitinni. Nú var leitað fram á dal kveldið, nóttina og fram á aftureldingu, en þá var létt upp þokunni, og einnig leitað í Miðárgili og fram í drag þess. Guðrúnu varð gengið lengra fram og kom að stórum steini og þar lá Árni sofandi undir honum með hendina undir kinninni. Hún vekur hann og hefir Árna með sér til fólksins og spyr það Árna um ferðir hans, og byrjar hann söguna þar sem Ingibjörg systir hans skildi við hann. Hann segir að honum hafi sýnzt bærinn sinn vera þar fram í þokunni er hann klifaði á við Ingibjörgu, hann hafi því gengið þangað og engan bæ fundið, en í staðinn hafi honum sýnzt að móðir hans hafa gengið á undan honum og hann svo elt hana svo þar til hún hvarf í þokuna, og gekk hann lengi eftir það. Þá kom til hans stúlka á gráum hesti og bauð honum að ríða, en hann vildi það ekki. Hún tók hann svo upp á hestinn og reiddi hann æði lengi, en hann orgaði og barðist um þar til hún varð að láta hann niður aftur og hvarf honum. Nú gekk hann enn þar til hann fann þennan stein og lagðist niður af þreytu og angri og sofnaði þar. – Nú þegar komið var heim segir Guðrún sá ætti fund sem fyndi, og bauð honum til fósturs og þáðu foreldrar hans það. Hann fór því með henni og ólst með þeim hjónum og var lengi þar síðan og kenndur Árni Eyjafjarðarskáld á Stórhamri í Eyjafirði.