Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Missagnir um tröllin í Þórisási

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Missagnir um tröllin í Þórisási

Öðrum segist svo frá að skessan (sú er getur um hér að framan eða önnur er í Skerslunum bjó) hafi orðið að steini á Þórisás þegar hún í bræði sinni stökk frá Kirkjubæ og náði ekki þriðja prestinum, en var búin að hylla tvo með þeim hætti að hún gjörði þá svo vitfirrta í kirkjunni við messugjörð á jólanóttina að þeir ruku út og sást ekki af þeim hold eða hár; því þegar ekki var annað sýnna en þessi þriðji prestur færi líkt og hinir fyrri þar óráð fór að koma á hann og hann að mæla fyrir altarinu: „Músin hleypur um altarið halalöng og afturmjó,“ söfnuðurinn að tárast yfir því hvornig komið var fyrir honum, hann aftur að segja þar til: „Grátið ekki börnin góð, ég átti við músina en ekki ykkur,“ og búa sig til að hlaupa út, þá skipaði djákninn að halda honum, en tók sjálfur í klukkurnar og hringdi þeim öllum lengi. En það stóðst skessan ekki. Brá hún við, en var aðeins komin upp á ásbrúnina þegar dagur rann upp, sem hún ekki þoldi betur að sjá en heyra klukknahljóðið og varð því að steini. En þá lokið var upp kirkjunni og bjart var orðið sást skarð í kirkjugarðinn og skór í, ef skó skyldi kalla, er menn þóttust fulltrúa um að eftir hefði orðið af skessu. Var hann gjörður úr tré og síðan hafður fyrir ekitrog á staðnum.

Þriðji varíantinn kemur þessum síðari nær, en mismunar í: 1) Að ringlið hafi komið á prestana eftir að þeir voru komnir í stólinn og fram í sókti ræðuna svo þeir fóru að tala óráð, héldust ekki við, en æddu út og sáust aldrei síðan. 2) Að firring vandræðanna hafi ekki verið djáknanum að þakka, heldur prestinum sjálfum þeim hinum þriðja (hvað hann hét getur þessi ei um heldur en hinn). Lagði hann þau ráð á áður en messan hófst á jólanóttunni að ef svo færi fyrir sér sem formönnum sínum að á sig kæmi ringlið og ókyrleikinn í stólnum og sér í lagi ef hann sýndi mót á sér að leita út þá skyldu tólf af safnaðarins mönnum sem hann til tók taka í klukkustrengina og hringja, aðrir tólf syngja á psaltaranum og þriðju tólf gæta kirkjudyranna og hafa hönd á sér. Þar frá tók hann stranglega vara á því að nokkur gengi eða gægðist út um messutímann. Síðar er tekið til og fer allt með felldu móti þangað til prestur er stiginn í stólinn og fram í ræðuna sækir; fer hann þá að tala meir og meira af óráði og verða órór og rýkur seinast ofan úr stólnum. En hinir bregða við strax eins og fyrir var lagt, hringja, syngja, hafa hemil á presti og leggjast á kirkjuhurðina. Þegar þessu hefir farið fram um stund og nokkuð frá líður fer ringlið af presti og fær hann ráð sitt aftur. Segir hann þá að öllu muni óhætt vera úr því, stígur í stólinn aftur og lýkur við messugjörðina. En eftir að úti var vitnaðist það að þrátt fyrir bann prestsins hafði forvitnin komið einhverjum til að skyggnast út um gætt eða glugga á kirkjuþilinu til að vita hvað um væri að vera úti fyrir. Verður honum þá litin stórvaxin kona standandi á ásbrúninni (öðrum en Þórisás) norðanhallt við kirkjuna. Litast hún um og stígur síðan öðrum fæti yfir um mýrarsundið sem milli liggur (hér um hálf teiglengd á breidd) yfir á kirkjugarðinn, en er svo þungstíg að garðurinn lætur undan og kemur skarð í hann. Í því sama bili gella kirkjuklukkurnar við. Verður henni þá heldur en ekki hverft við, kippir að sér fætinum og segir um leið: „Stattu aldrei,“ hverfur síðan burt. En eftir á þegar birti og eftir var litið sáust vegsummerkin, skarðið í garðinum og skór í, ete. ut supra.[1] En sú þótti raun á verða lengi fram eftir öldunum að álög skessunnar hefði hrinið á kirkjugarðinum því þó hlaðið væri upp í skarðið urðu gildingarnar aldrei langstæðar.

  1. ᴐ: o. s. frv. eins og að framan.