Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Níu nóttum fyrir jól
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Níu nóttum fyrir jól“
„Níu nóttum fyrir jól“
Jólasveinar var sagt að kæmu til heimila með jólaföstunni með stóra hatta á höfðum, búklausir, en kloflangir upp að herðum og sæktu eftir floti. Aðrir sögðu þeir sæktu ekki til bæja fyrr en rúmri viku fyr[ir] jólin og staðfestu það með kvæði þessu:
- Níu nóttum fyrir jól
- þá kem ég til manna.
- Upp á hól
- stendur mín kanna.
Bezt áttu þeir að þrífast á þeim heimilum sem var bölvað á. Um þrettánda dag jóla áttu þeir að safnast saman og drepa þann magrasta.